Mánudagur, 21. júlí 2008
Neytendur (eiga að) "kjósa" daglega
Mörgum hefur - að mínu mati réttilega - fundist ónógt lýðræði í Evrópusambandinu og hefur lengi verið talað um "lýðræðishalla" í því efni. Eins og fjallað var um á BBC í vikunni er ástæðan m.a. sú að almenningur veit ekki hvert á að snúa sér með umkvörtunarefni sín og umbótatillögur.
Hér á landi er hins vegar a.m.k. á 4ra ára fresti hægt að kjósa þingmenn (eða a.m.k. flokka) og í flestum lýðræðisríkjum er fræðilega hægt að skipta um þing á 4-5 ára fresti.
Í Bandaríkjunum, sem mér finnast að mörgu leyti góð stjórnskipuleg fyrirmynd er fresturinn mislangur eftir því hvor þingdeildin á í hlut og auk þess er við lýði skörun þannig að ekki er kosið um alla þingmenn í einu. Á hinn bóginn er þar ekki þingræð, þ.e. þingið þarf ekki að samþykkja hverjir fara með framkvæmdarvald eins og hér, þ.e. ráðherra. Auk þess er í Bandaríkjunum löng hefð fyrir rétti kjósenda til þess að koma á framfæri erindum við stjórnvöld og þingmenn (e. the right to petition the government) eins og við fréttum stundum af.
Sá réttur kemur mér oft í hug þegar auglýst er að kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum (sem skipta má út á 4ra ára fresti) auglýsa viðtalstíma - sem mér finnst frábært.
Þetta lýðræði er ágæt framför frá 19. öld (þ.e. 1801-1900) en sumum þykir það þunnur þrettándi að fá ekki að segja, hlusta, ákveða og samþykkja meira á milli formlegra kosninga. Hvað um það; þegar neytendur kvarta í mín eyru yfir áhrifaleysi sínu er ég ekki alltaf sammála - þó að samkeppni og möguleikar á að velja mættu vera meiri, líka í okkar litla landi. Að meginstefnu til kjósa neytendur nefnilega daglega - og meira en það; kosningaréttur neytenda felst líka í að sitja heima eða kjósa með fótunum, sem kallað er.
Eins og ég vísaði til fyrir hálfu öðru ári síðan virðast nú loksins (smám saman) vera að renna upp þeir tímar að neytandinn sé "kóngur" - eins og þarnefndur kaupmaður lýsti yfir fyrir meira en 130 árum.
En, ekki er nóg að neytendur tali um hlutina - hafi "kosningarétt;" það þarf að nýta hann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.