Miðvikudagur, 23. júlí 2008
19. aldar hvað!
Ég er því miður ekki vel að mér um byggingarlist en ekki áhugalaus um skipulagsmál og mjög fíkinn í ýmis konar tengingar við ártöl og dagsetningar eins og lesendur hafa e.t.v. orðið varir við. Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég heyrði enn eina fréttina um brýna þörf á að varðveita 19. aldar götumynd í borginni að tvö hús við Laugaveginn virðast hafa átt þátt í því að að aftur urðu meirihlutaskipti í úthverfi okkar Kópavogsbúa - og auðvitað ekkert athugavert við það.
Það sem mér fannst dálítið skrýtið við þessa sífelldu klifun á mikilvægi þess að varðveita 19. aldar götumyndina við þessa gömlu verslunargötu var ekki bara að um var að ræða tvö hús (sumir myndu segja kofa) - sem eiga, sem sagt, að vera götumynd. Sem landsbyggðarmaður var ég ekki nógu vel að mér um sögu Reykjavíkur en hafði ekki fyrirfram búist við að komin hefði verið götumynd á þessum tíma - sem auk þess hefði varðveist í yfir 100 ár.
Efi minn reyndist svo - a.m.k. að hálfu - á bjargi byggður þegar einni fréttinni í kjölfar meirihlutaskiptanna fylgdi myndskeið sem sýndi að annað mannvirkið var byggt í byrjun 20. aldar, 1912 að mig minnir (ég hef ekki nennt að hjóla og ekki tímt að keyra til þess að sannreyna nákvæmt ártal). Helmingurinn af þessari götumynd er sem sagt ekki frá 19. öld heldur frá 20. öld - sem hófst ekki síðar en 1901!
Kannski er þetta rugl með aldir sama eðlis og misskilningur margra - jafnvel fjölmiðlamanna og annarra sem starfa fyrir lýðinn - á því hvenær menn eru á þrítugsaldri o.s.frv. Ég fjalla kannski um það síðar en smá vísbending: þetta er kannski viðkvæmt fyrir suma(r) en svo dæmi sé tekið - þegar ég verð fertugur (40 ára) á næsta ári verð ég kominn á fimmtugsaldur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.