Bakhús - ekki Bakkus (almannaþjónusta eður ei)

Ég var í góðu boði í ónefndu bakhúsi í borginni (fyrirgefið ofstuðlun) um daginn. Var því þá velt upp í gríni að réttast væri að rífa húsin framan við til þess að falleg sjávarsýnin nyti sín til fullnustu hjá bakhúsíbúum. Brandarinn minnti mig á tilhneigingu sumra (veit ekki hvort ég á að kalla þá hægrimenn eða hvað - því frjálshyggjumenn eru að mínu mati - eins og alvöru sósíalistar - yfirleitt samkvæmir sjálfum sér) síðan ég byrjaði að fylgjast með þjóðfélagsmálum á Íslandi af alvöru fyrir um tveimur áratugum.

 

Tilhneiging þessara ónefndu manna er sú að

  1. gera fyrst kröfu um að einkaaðilum sé leyfð starfsemi á sviðum sem hið opinbera hefur séð um eða einokað fram að því;
  2. krefjast svo styrkja til þeirrar starfsemi til þess að standa jafnt að vígi við þá aðila sem reka starfsemi á kostnað og jafnvel ábyrgð hins opinbera; og
  3. heimta svo að hinn opinberi aðili aðskilji ekki bara samkeppnisrekstur sinn frá þeim sem nýtur sérleyfis eða annarrar (óbeinnar) verndar heldur
  4. fara fram á að hið opinbera hætti rekstri á tilteknum sviðum, sem almenningur hefur eðlilega og í samræmi við stjórnarskrá treyst á að sinnt sé fyrir almannafé - og án þess að þjónusta sé háð greiðslu frá hverjum og einum - og þar með háð efnahag.

Í krafti stjórnarskrárákvæða leyfi ég mér að vekja máls á þessu álitaefni sem tengist a.m.k. óbeint neytendapólitík. Þið, neytendur góðir, getið sjálf - ekki síður en ég - velt fyrir ykkur dæmum af sviði útvarpsþjónustu, menningarþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntunar- og uppeldisþjónustu o.s.frv. - en þó að framangreind stig eigi við í mismiklum mæli, mismunandi röð og jafnvel með misríkri (ó)réttlætingu er þetta tilfinning mín eftir að hafa hugsað þetta mál, stúderað og unnið því tengt í um 20 ár.

 

Ég þykist vita að frjálshyggjumenn á borð við ónefnda ættingja mína í nefndu bakhús-boði (Bakkus var ekki þar) segi að einkarekstur sé alls ekkert bakhús - miðað við samlíkingu mína - sem biðja þurfi um leyfi til þess að vera til; einkastarfsemi sé lögmálið, einkarekstur sé það sem tíðka eigi nema annað sannist (eins og í sakamáli). Ég hallast hins vegar að því að opinber þjónusta þurfi þess heldur ekki heldur hafi hún sinn tilverurétt í huga almennings - og neytenda þessa góða lands. Ef lesendur efast geta þeir fengið staðfestingu í stjórnarskránni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hundshausinn

Í raun og veru er styttra á milli þeirra, sem lengst eru til hægri og þeirra, sem allra lengst eru til vinstri. Ímyndum okkur kassa. Setjum merki hægra megin við neðra hornið  þeim megin. Fylgjum síðan jöðrunum rangleiðis upp og með köntunum uns komið er allt að horninu næst upphafsstað. Staðsetningarnar á upphafsstað og ferðalokum eru táknrænar. Spurningin felur og í sér svarið: Hver er stysta leiðin milli fylkinganna? Skemmstu leið fyrir hornið  - að sjálfsögðu...

Hundshausinn, 16.4.2008 kl. 23:10

2 Smámynd: Ómar Ingi

Hvða eiturlyf voruð þið á ?

Ómar Ingi, 17.4.2008 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband