Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Bætur út af Brindisi

Hér er mikilvægt fordæmi til handa neytendum. Samkvæmt fréttinni kemur fram í dóminum að flugfélag geti ekki - eins og hingað til hafi tíðkast - losnað við bótaskyldu gagnvart neytendum ef bilun í flugvél uppgötvast tímanlega áður en flugferð hefst eða kemur í ljós við reglubundna yfirferð tækjabúnaðar. 

 

Hér er væntanlega um að ræða svokallaða hlutlæga ábyrgð atvinnurekanda - þar sem ekki er spurt um svonefnda sök, þ.e. hvort mistök hafi verið gerð, eins og almennt er gert í skaðabótarétti utan samninga. Hér er um að ræða ábyrgð innan samninga sem er strangari - t.d. í þágu neytenda. Jafnvel getur ábyrgðin verið alger - nema að oft er gerð undantekning þar sem viðsemjandinn - hér flugfélagið - sleppur við ábyrgð vegna atvika sem hann getur ekki borið ábyrgð á. Þá er ekki hægt að bera fyrir sig afsakanir eins og peningaleysi eða tæknileg mistök - hvað þá gleymsku eða hirðuleysi - heldur aðeins óhjákvæmilegar ytri ástæður, svonefnt "force majeure" sem bókstaflega þýtt merkir eitthvað á borð við "æðri mátt." Ég hef ekki lesið dóminn sjálfan en geri ráð fyrir að þær sérstöku aðstæður sem um ræðir í fréttinni séu svonefndar force majeure aðstæður.

 

Á vef Flugmálastjórnar, sem fer með framkvæmd slíkra reglna hérlendis, segir um ábyrgð þegar flugi er aflýst (áhersla GT):

 

Ábyrgð flugrekanda getur fallið niður að hluta eða öllu leyti skapist óviðráðanlegar aðstæður sem ekki er mögulegt að afstýra, jafnvel þótt gerðar hafi verið allar nauðsynlegar ráðstafanir.  T.d. geta slíkar aðstæður skapast af völdum ótryggs stjórnmálasambands, veðurskilyrða sem samræmast ekki kröfum sem gerðar eru til viðkomandi flugs, öryggisáhættu, verkfalla sem geta haft áhrif á starfsemi flugrekanda, ákvarðana sem teknar eru af flugumferðarstjórn tengd tilteknu loftfari eða loftförum sem er þess valdandi að flugi er aflýst.

 

Af dæmunum, sem Flugmálastjórn tekur, má sjá að "æðri máttarvöld" voru upphaflega höfð í huga þegar reglan varð til og tekur hún því dæmigert til veðurskilyrða en síðar hafa mannanna verk bæst við svo fremi sem þau séu utan við beint áhrifasvið viðsemjandans, flugfélagsins - svo sem verkföll og stjórnmálaóvissa. Allt telst þetta óviðráðanlegt en til áréttingar er tekið fram að ekki sé mögulegt að afstýra þeim. Dómurinn undirstrikar það - sem reyndar er kennt á 1. ári í lögfræði - að ákvæði um force majeure eru mjög þröngt túlkuð.

 

Þröng nálgun er staðfest í fréttinni sem má að vísu skilja svo að byggt sé á sakarábyrgð; þar segir:

 

Í úrskurðinum segir að í tilfelli fjölskyldunnar hefði flugfélagið átt að sjá það fyrir að ekki yrði hægt að nota umrædda flugvél þar sem vitað hafi verið um bilun í henni sólarhring áður en hún átti að fara umrædda ferð. Þá segir í úrskurðinum að bilanir, sem komi í ljós við reglubundna yfirferð tækjabúnaðar, geti ekki flokkast sem sérstakar aðstæður. 

 

Fyrirsögnin "Réttur flugfarþega aukinn" er því misvísandi því þarna er að mínu mati gildandi réttur staðfestur þó að hann hafi ekki verið virtur í framkvæmd. Í frétt á www.mbl.is dag um málið segir:

 

Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að flugfélögum beri að endurgreiða farþegum flugfarmiða með staðgreiðslu sé ferðum þeirra aflýst, vegna tæk[n]ilegra vandamála. Málið var höfðað á hendur ítalska flugfélagsins [sic]  Alitalia vegna flugs sem aflýst var fimm mínútum fyrir áætlaða brottför.  Úrskurðurinn nær hins vegar til allra evrópskra flugfélaga. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende. 

 

Hér geta neytendur á Leiðakerfi neytenda (www.neytandi.is) leitað réttar síns vegna flugferða og annarra ferðalaga.


mbl.is Réttur flugfarþega aukinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.