Varla mútur en...

Nú undir lok páskahátíðar höfðu háskólamenn, blaðamenn og stjórnmálamenn bæst í hóp þeirra sem tóku sér opinberlega sama orð í munn og bloggarar og almenningur höfðu áður notað: 

 

mútur!

 

Í kjölfar frétta undanfarna viku af styrkjum - einkum árið 2006 - til stjórnmálaflokka er spurningin hvort lagaskilyrði fyrir "mútum" eru uppfyllt. Lagahugtakið "mútur" er e.t.v. ekki alveg einhlítt. Auk banns í kosningalögum við því að bera fé á kjósendur falla að mínu mati undir almennan skilning á "mútum" eftirfarandi ákvæði í almennum hegningarlögum frá 1940:

 

Ef opinber starfsmaður heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.

 

Hafi opinber starfsmaður, í öðrum tilfellum en lýst er hér að framan, misnotað stöðu sína sér eða öðrum til ávinnings eða til þess að gera nokkuð það, sem hallar réttindum einstakra manna eða hins opinbera, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

 

Ekki verður séð að önnur ákvæði XIV kafla almennra hegningarlaga komi til álita þegar hugtakið "mútur" er notað þó að ég hafi ekki séð það tilfært til refsilaga í umræðu undanfarna viku.

 

Án þess að ég vilji sýkna (frekar en dæma) neinn án dóms og laga - enda ekki til þess bær - virðist mér við greiningu á þessum ákvæðum og lestur á athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til almennra hegningarlaga a.m.k. frekari upplýsingar þurfa að koma til ef halda á því fram með nokkrum rétti að uppfyllt séu lagaskilyrði fyrir "mútum" eins og haldið hefur verið á lofti síðustu daga - í opinberri umræðu og víðar.

 

Það er hins vegar að mínu mati ekki aðalatriðið - heldur það að lengi vel skorti lagareglur um fjármál stjórnmálaflokka. Meginatriðið er að flestir - þ.m.t. fyrrverandi og núverandi forsvarsmenn og aðrir fulltrúar umræddra stjórnmálaflokka - eru sammála - eftirá að hyggja - að þetta hafi ekki verið viðeigandi. Ég hef ítrekað fjallað um lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra og fjallaði m.a. um væntanleg áhrif þeirra við gildistöku fyrir rúmum tveimur árum í fyrsta neytendapistli mínum.

 

Á morgun mun ég hins vegar freista þess að fjalla um hugsanlegar afleiðingar þess að slík lög voru ekki í gildi - í bakspeglinum.


mbl.is Allt of háir styrkir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snæbjörn Björnsson Birnir

Veit ekki til að nokkur stjórnmálamaður hafi enn sagt beint fram að þetta séu mútur, en afturámóti að þetta kalli fram hugleiðingar um hvort svo geti verið. Stór munur þar á. Einnig er lagabókstafurinn ekki svo áhugaverður fyrr en kemur fyrir dómstóla. Það er nú einu sinni slík, að það sem blasir við hugsandi fólki er ekki alltaf auðvelt að fá staðfest hjá dómstólum. Ýmist vegna þess að lög eru ekki nógu skýr, eða af öðrum ástæðum. Kom þetta m.a. mjög vel í ljós í hinu fræga Baugsmáli.

Snæbjörn Björnsson Birnir, 15.4.2009 kl. 09:23

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hvað með að nota orðið "áhrifakaup" ?

Þ.e. ef orðið "mútur" sjokkerar svona mikið.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 15.4.2009 kl. 14:16

3 Smámynd: Gísli Tryggvason

Það var þá "bætt" úr því á Alþingi í dag en sá stjórnmálamaður sem ég hafði í huga jánkaði - aðspurður að vísu - að hugtakið kæmi til álita. Sammála ykkur að öðru leyti.

Gísli Tryggvason, 15.4.2009 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.