Uppskrift að nýju lýðveldi - sjálfstætt stjórnlagaþing sem þjóðin kýs til

Frábært framtak hér hjá www.nyttlydveldi.is að sameina þjóðina um nýjan þjóðfund; af þessu tilefni endurbirti ég kjarna úr færslu minni frá í gærkvöldi:

 

Stjórnlagaþing er það kallað þegar haldin er lögleg bylting.

 

Yfirgnæfandi stuðningur (95%) er við  stjórnlagaþing - nýjan þjóðfund - sem endurskoði stjórnskipun landsins frá grunni - og leggi grundvöll að nýju lýðveldi. Ef sammæli er um að stjórnlagaþing sé eðlilegasta leiðin nú til þess að gera róttækar breytingar á stjórnskipan Íslands og stofna nýtt lýðveldi má hér finna uppskrift að stjórnlagaþingi í 12 skrefum:

 

  1. Núverandi Alþingi afgreiðir stjórnarskrárbreytingu um tímabundið stjórnlagaþing sem fái vald til þess að semja nýja stjórnarskrá.
  2. Þing er rofið og kosið að nýju eins og skylt er þegar frumvarp um stjórnarskrárbreytingu er samþykkt.
  3. Stjórnlagaþing kemur saman þegar stjórnarskrárbreyting er samþykkt öðru sinni af nýkjörnu Alþingi.
  4. Ekki verði aðeins um smávægilegar lagfæringar að ræða eins og hingað til.
  5. Þingmenn og ráðherrar eigi ekki sæti á stjórnlagaþingi.
  6. Á stjórnlagaþing verði kjörnir í almennum kosningum fulltrúar þjóðarinnar.
  7. Einnig gætu almannasamtök og hagsmunasamtök fengið áheyrnarfulltrúa, t.d. í starfsnefndum stjórnlagaþings, en aðeins þjóðkjörnir fulltrúar hafi atkvæðisrétt.
  8. Sjálfstæði stjórnlagaþings sé tryggt með því að fulltrúar þar séu launaðir, stjórnlagaþing ákveði sjálft skipulag sitt, fundarsköp og starfshætti.
  9. Stjórnlagaþing geti ráðið sér sérfræðinga til aðstoðar.
  10. Starfstími stjórnlagaþings gæti verið um hálft ár.
  11. Alþingi og ríkisstjórn starfi áfram að sínum hefðbundnu úrlausnarefnum á meðan.
  12. Ný stjórnarskrá verði borin undir þjóðina í bindandi allsherjaratkvæðagreiðslu.

 

Áður er komið fram að gildandi stjórnarskrá er 135 ára og eftir nokkra daga verður 105 ára heimastjórnarafmæli; síðan hefur stjórnskipulag lítið breyst - sem m.a. endurspeglast í nánum tengslum þings og æðstu handhafa framkvæmdarvalds. Meginröksemdir fyrir róttækri stjórnarskrárbreytingu eru þó þessi:

 

  • Frumkvæði að stjórnarskrárbreytingum hefur hingað til aðeins getað komið frá Alþingi og stjórnmálaflokkunum sem þar eiga fulltrúa.
  • Stjórnarskrárbreytingar hafa ávallt fallið í skugga almennra kosninga.
  • Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar hefur oft staðið til en alltaf mistekist.
  • Vantraust er á stjórnvöldum og stjórnmálaflokkum.
  • Krafa er um beint lýðræði.
  • Óskir eru uppi um róttæka heildarendurskoðun stjórnskipunarinnar.

mbl.is Lagður verði grunnur að nýju lýðveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Nú eru stórkostlegir hlutir að gerast og þeirra verður minnst á spjöldum sögunar síðar. Það sem skiptir þó mestu máli er að nú er verið að taka á stjórnskipan landsins á afar faglegan og vandaðan hátt. Nú er ekki aðalmálið að stjórnmálaflokkar haldi einhverjum "réttindum"  heldur er fyrst og fremst verið að huga að réttarstöðu fólksins í landinu og stjórnskipan sem tryggir lýðræðið sem allra best. Hvað er hægt að biðja um meira. Ég bið Guð að blessa alla þá sem koma nú og munu koma að þessari vinnu, sem er vandasöm og afar mikilvæg.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.1.2009 kl. 22:29

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það vantar einn punkt. Hver hefur vald til að gera breytingartillögu og breyta hinni nýju stjórnarskrá.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 21.1.2009 kl. 23:15

3 Smámynd: Sigurbjörn Svavarsson

Sameinum alla krafta í sömu átt, þannig næst árangur. Njörð P. Njarðvík ofl.

Þetta er mikilsvert mál og nú eru tímarnir til að virkja alla sem eru að hugsa á sömu nótum. Brjóta hlekki flokksyfirráða yfir Alþingi. Meiri áhrif almennings á Alþingi milli kosninga. 

 Hlakka til að sjá hvað birtist á nyttlydveldi.is

Sigurbjörn Svavarsson, 21.1.2009 kl. 23:29

4 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk, Hólmfríður, fyrir blessunaróskina - sem skiptir máli. Sammála - þess vegna verður þingið þjóðkjörið og jafnt - þannig að taka megi opinskátt á öllum hagsmunum, bæði stjórnmálaflokka og annarra. Hins vegar má ekki ímynda sér að hagsmunir hverfi nú - en ný stjórnskipun þarf að vega þá jafnt.

Nei, Kristján Sigurður; ef þú átt við framvegis þá vantar þann punkt ekki; sá punktur er einn af þeim sem stjórnlagaþingið sjálft á að meta - á að breyta stjórnarskránni framvegis eftir uppskrift 79. gr. stjórnarskrárinnar (tvenn stjórnskipunarlög með kosningum á milli) eða með öðrum og betri hætti?

Ef þú átt við nýja stjórnarskrá þá er hugmyndin að kosið verði til a.m.k. 100 manna stjórnlagaþings þar sem gerðar verða tillögur og samþykkt með auknum (t.d. 2/3) meirihluta; náist það getur þjóðin vissulega bara samþykkt eða hafnað nýrri stjórnarskrá.

Gísli Tryggvason, 21.1.2009 kl. 23:31

5 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ég er til í að láta reyna á þetta. Það er mikilvægt að hið beina lýðræði fái aðild að slíku þjóðþrifamáli. En ég er alltaf hikandi yfir útfærslunum á svona - það þarf að vanda sig við þær. T.d fulltrúa frá hvaða hagsmunasamtökum er eðlilegt að komi að slíku starfi? erum við að tala um jaðar hagsmunahópa jafnt sem aðila vinnumarkaðarins/fagfélögin? En þetta er gott framtak. Gangi ykkur vel með það.

Anna Karlsdóttir, 21.1.2009 kl. 23:52

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég er hlyntur því að sett verði á fót neyðarstjórn. Hún getur verið þjóðstjórn, en innan hennar þurfa líka að vera einstaklingar sem ekki eru á þingi. Samhliða stofnun neyðarstjórnarinnar verði kallað saman (kosið?) stjórnlagaþing sem á að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá og nýja stjórnskipan. Hlutverk neyðarstjórnarinnar verður að taka yfir endurreisn hagkerfisins með öllum tiltækum ráðum. Alþingi verði áfram starfandi og heldur sínu striki, en jafnframt verði boðað til þingkosninga sem fari fram í vor. Tilgangur hins nýja þings verði fyrst og fremst að fara yfir lagasafnið, áhættugreina það, kostnaðargreina, finna veilur í því og leggja fram frumvörp til breytingar með það að markmiði að gera lagaumhverfið manneskjulegra og koma á siðbót í íslensku samfélagi. Hlutverk þess verði jafnframt að breyta lögum í samræmi við niðurstöður stjórnlagaþingsins, en ljóst er að margar breytingar þarf að gera. Þetta þing sitji í takmarkaðan tíma 12-18 mánuði. Þá verði boðað aftur til kosninga í samræmi við nýja stjórnskipan. Neyðarstjórnin sitji fram að þessum seinni kosningum, en eftir þær verði mynduð ríkisstjórn í samræmi við nýja stjórnskipan.

Marinó G. Njálsson, 22.1.2009 kl. 00:49

7 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Það er ekkert annað sem dugar. Nú einhendum við okkur í að byggja upp 2. íslenska lýðveldið á Nýja Íslandi".

 Þakka þér fyrir þinn hlut, Gísli. Þú ert bara flottur

Jón Ragnar Björnsson, 22.1.2009 kl. 01:22

8 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Mér líst vel á þessar hugmyndir, frábært að finna að unnið sé að róttækum tillögum til breytinga á stjórnarskránni. Raunar endurnýjunar sem er full þörf á.

Nauðsynlegt að þar verði vandað til verka og orðalag hafið yfir allan vafa , þannig að útúrsnúningasnatar geti ekki gert sér leik að rangtúlka meiningar stjórnarskrár, eins og gert hefur verið !

Þakkarvert framtak !

Kristján H Theódórsson, 22.1.2009 kl. 09:27

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta hefur í áratugi verið á forgangslista stjórnmála hjá mér. Síðasta ár hefur sýnt okkur svo ekki verður um villst að lýðræðið er ekki efst í huga þeirra stjórnvalda sem nú sitja. Vandinn er sá að þegar til kastanna kemur sjá sitjandi alþingismenn einhverja annmarka á tillögunni og drepa málinu á dreif.

Árni Gunnarsson, 22.1.2009 kl. 11:00

10 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Flott Gísli, lýst vel á þessa hugmynd.

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 22.1.2009 kl. 13:44

11 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Áhugaverðar hugmyndir. Það þarf að tryggja lýðræði í stað þess flokksræðis sem hefur ríkt allt of lengi.

Ævar Rafn Kjartansson, 22.1.2009 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband