Lagaleg ábyrgð gagnvart neytendum

Þetta var ágætt hjá Ásmundi - að biðja annars vegar "almenna starfsmenn" og hins vegar "íslenskt samfélag" afsökunar á mistökum sem bankinn gerði fyrir hrun. Ásmundur hefur hins vegar  væntanlega fengið lögfræðilega ráðgjöf áður þess efnis að tiltaka ekki sérstaklega þann hóp innan íslensks samfélags - neytendur - sem ber að óbreyttu mestan skell vegna mistaka sem bankar og stjórnvöld gerðu - bæði með aðgerðum og aðgerðarleysi; hvort tveggja getur nefnilega leitt til ábyrgðar að lögum - svo sem vegna reglna um skaðabótaábyrgð og lagasjónarmiða um forsendubrest.

 

Eins og fram kom í sameiginlegu ákalli talsmanns neytenda, Hagsmunasamtaka heimilanna og fleiri samtaka 11. febrúar sl. til stjórnvalda um almennar aðgerðir til lausnar efnahagsvanda heimilanna er að mínu mati þörf á almennum aðgerðum til lausnar - til viðbótar við

  • þau sértæku áform til lausnar og
  • þær almennu aðgerðir til frestunar

á vandanum sem ný ríkisstjórn hafði þá þegar kynnt og nú hafa orðið að lögum.

 

Í ákallinu sagði:

 

Til að koma í veg fyrir að fjöldi lántakenda lendi í þroti og jafnframt stuðla að því að fasteignamarkaður fari aftur af stað þarf að auki að beita almennum aðgerðum í eitt skipti. Til þarf að koma veruleg og almenn niðurfærsla höfuðstóla íbúðarveðlána vegna verulegs og óvænts gengishruns íslensku krónunnar og þarafleiðandi hækkunar gengistryggðra og verðtryggðra lána í kjölfar verðbólgu undanfarna 18 mánuði.

 

Eftir langan undirbúning tel ég mig hafa fundið málsmeðferðarleið sem er vert að gera formlega tillögu um til stjórnvalda að loknu samráði við formenn stjórnmálaflokkanna í næstu viku. 

 

Orðrétt sagði Ásmundur samkvæmt frétt RÚV:

 

Ég leyfi mér fyrir hönd stjórnenda Landsbankans að biðja almenna starfsmenn hans afsökunar á því umhverfi sem ykkur var búið og þeim mistökum sem gerð voru við stjórnvölinn. Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri sem bankastjóri Landsbankans og biðja fyrir bankans hönd íslenskt samfélag afsökunar á hlutdeild bankans í þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag.

 

Sem fyrrverandi framkvæmdarstjóri og lögmaður heildarsamtaka launafólks geri ég að sjálfsögðu ekki athugasemdir við að Ásmundur tiltaki einn hóp innan íslensks samfélags - þ.e. "almenna starfsmenn" bankans á umhverfi sem þeim var búið og mistökum sem gerð voru við stjórnvölinn og tek fram að ég á náinn ættingja sem er og var í hópi stjórnenda. Sem talsmaður neytenda skil ég hins vegar samkvæmt framangreindu að Ásmundur taki að yfirlögðu lögfræðilegu ráði ekki þá áhættu að tiltaka sérstaklega einnig þann hóp sem stærstan skellinn ber innan íslensks samfélags, þ.e. neytendur, og tek einnig fram að ég er í þeim hópi. Slík yfirlýsing gagnvart neytendum hefur hugsanlega verið talin geta falið í sér viðurkenningu á lagalegri ábyrgð bankans - sem ég tel líklegt að sé fyrir hendi eins og síðar verður rökstutt á opinberum vettvangi.


mbl.is Baðst afsökunar á mistökum bankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Almennt verð"

Í gærkvöldi keypti ég veitingar á stað sem ég sæki óreglulega og fannst eins og verðið hefði lækkað um 100 kr. frá því síðast - og spurði hverju sætti. Svar starfsmannsins var eitthvað á þesa leið:

 

Það voru svo margir með afslátt að við lækkuðum bara almenna verðið niður í afsláttarverð.

 

Það tók því sem sagt ekki að hafa "almennt verð" fyrir alla (fæsta reyndar) nema þá (flesta) sem njóta annars og lægra verðs. Með þessu þótti mér hafa sannast réttmæti þeirra afstöðu sem ég hafði nefnt á útvarpi Sögu nokkrum klukkustundum fyrr. Í síðdegisútvarpinu milli 4 og 5 var ég í löngum viðtalsþætti um ýmis neytendamál spurður hvort neytendur ættu ekki að vera duglegri að prútta eins og menningarskylda er í sumum fjarlægum löndum. Ég lagði að vísu mikla áherslu á neytendavitund sem flestra - um réttindi sem verð. Á hinn bóginn sagðist ég frekar aðhyllast jafnræði í verðlagningu fyrir alla (burtséð frá magnafslætti og slíku) frekar en að eitt "almennt" verð væri fyrir suma (oft flesta) og annað og lægra "tilboðs-", "vildarvina-" eða "afsláttarverð" fyrir hina (gjarnan færri) sem tilheyra einhverjum hópi eða leggja sig fram um að prútta.

 

Þó að þessi afstaða eigi e.t.v. ekki við í öllum tilvikum má nefna að tilgangur verðskrár og verðmerkinga á vöru og þjónustu er einmitt að neytendur geti fyrirfram og án samningaviðræðna við fulltrúa söluaðila gert sér grein fyrir - almennu og raunverulegu - verði og farið annað eða beðið eða sleppt kaupum ef verðið hugnaðst þeim ekki.

 

Við þetta bætist að dæmi eru um að neytendur séu blekktir með því að halda að afsláttur sem þeim sé lofað sé meiri en ella; það sem máli skiptir er jú verðið en ekki afslátturinn. Ég hef hugleitt hvort þetta kalli á tillögu um löggjöf um málið en ekki látið verða af því enn.

 

Heimur batnandi fer.


Sjö hestar andskotans

Alveg fram undir kreppu máttu þeir sem efuðust um réttmæti verðtryggingar sæta ámæli stjórnmálaafla og hagfræðinga - en nú efast fleiri. Gunnar Tómasson hagfræðingur, sem mun hafa verið meðal þeirra sem fyrst og lengst efuðust um réttmæti verðtryggingar, skrifar gagnorða og góða grein í Fréttablaðið í gær um Hagfræði andskotans. Þar svarar hann Guðmundi Ólafssyni lektor mjög vel villandi dæmi um hestana sjö - eins og ég leitaðist við síðsumars með þessum hætti:

 

Málið er að lántakandi tekur einmitt 10 hesta (krónur) að láni og vill vita hvað hann á að greiða til  baka í leigu (vexti) auk höfuðstólsins (hestanna 10, auðvitað). Hér á landi bætist hins vegar við óviss fjöldi folalda (verðbóta) sem er mældur eftir á - miðað við það sem nágrannabóndinn hefur náð í ávöxtun með því að hafa sínar hryssur heima með með fola. Væri ekki eðlilegra að lánveitandinn semdi um vexti með hliðsjón af þeim fórnarkostnaði - eina tegund vaxta en ekki tvær?

 

Meint rýrnun lánsins (verðbólga) er mæld sem það sem lánveitandinn er talinn hafa farið á mis við með því að verðbólga var ekki bara hærri en búist var við heldur bara einhver. Ég gæti ímyndað mér að réttlátara þætti ef áhættu af umframverðbólgu yfir einhverri tilgreindri spá (t.d. 2,5% eins og verðbólgumarkmið Seðlabankans) væri skipt á milli lánveitanda og lántakanda. 

 

Gunnar svarar Guðmundi m.a. með þessum orðum:

 

Þetta er rugl - einum hesti verður ekki umbreytt í stóð né kaffipakka í skipsfarm af kaffi með einfaldri tölvufærslu líkt og dugar til að margfalda nafnvirði peninga í hagkerfinu. Skipsfarmur af framleiðsluvörum getur týnst í hafi en pappírsauður getur horfið eins og dögg fyrir sólu sbr. hlutafé í íslenzku bönkunum í byrjun október 2008. Vitræn umræða um verðtryggingu krefst þess að raunverðmætum sé ekki jafnað til ávísana á verðmæti - að hestum og kaffi sé ekki jafnað til peninga/ávísana á hesta og kaffi.

 

 


... lög um fjármál stjórnmálaflokka eru væntanlega óbein réttarbót fyrir neytendur

Eins og ég boðaði í gær vil ég velta því upp hvaða afleiðingar það kann að hafa haft fyrir neytendur að fram til 2007 giltu hér engin almenn  lög um fjármál stjórnmálaflokka o.fl. Langa reynslu af framkvæmd laganna skortir enn og þau eru raunar aðeins nýlega komin til framkvæmda með nýlegri birtingu Ríkisendurskoðunar á nöfnum lögaðila sem styrkja flokka (og síðar væntanlega frambjóðendur); því verður þetta fyrst og fremst ályktun.

 

Ég vil rifja upp nýlega frétt um eigið mat Viðskiptaráðs árið 2006 á áhrifum þess á lagasetningu - hvorki meira né minna en 90% - en ég man vel hvað mér fannst þetta merkileg mæling og í raun öfundsverð fyrir þann sem stundum gætir andstæðra hagsmuna. Ég verð að segja að því miður hafa þeir, sem gæta eiga hagsmuna neytenda, hingað til ekki haft nándar nærri eins mikil áhrif á stjórnvöld - en ég hef yfir 10 ára reynslu af hagsmunagæslu fyrir launafólk og neytendur. Þó að ég hafi enn ekki lagt í sambærilega mælingu á þeim áhrifum - eða því áhrifaleysi - hvað varðar umsagnir talsmanns neytenda til nefndasviðs Alþingis - eða gagnvart undirbúningsstarfi löggjafar innan Stjórnarráðsins - þá kemur slíkt vel til greina. Í þessu áhrifaleysi launafólks, almannahagsmuna og neytenda eða áhrifamisvægi gagnvart löggjafanum og ekki síður stjórnvöldum kann aðalskaðinn að hafa falist í því að lög skorti um fjármál stjórnmálaflokka.

 

Um þetta sagði ég í fyrsta neytendapistli mínum um nefnda löggjöf:

 

Almannasamtök

Sama má væntanlega segja um samtök neytenda eða önnur almannasamtök sem vinna að framgangi hagsmuna neytenda enda verða þau undir sömu takmörkunum og aðrir lögaðilar og einstaklingar varðandi hámark 300 þús. kr. á ári. Geng ég út frá því að slík samtök hafi ekki styrkt stjórnmálaflokka eða frambjóðendur í neinum mæli síðustu áratugina. Byggi ég það bæði á beinni reynslu minni og óbeinni þekkingu af starfi og rekstri hagsmunasamtaka á borð við samtök launafólks um árabil. Má því væntanlega slá því föstu að staða almannasamtaka sé einnig óbreytt gagnvart lögunum. Möguleikar hagsmunasamtaka til þess að hafa áhrif á stjórnmálastarfsemi felast væntanlega eftir sem áður einkum í því að hafa áhrif á opinbera umræðu um hagsmunamál félagsmanna sinna.

 

Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að löggjafinn ákvað því miður að prófkjörsákvæði laganna  skyldi ekki taka gildi fyrr en tæpu hálfu ári seinna en lögin að öðru leyti - þ.e. eftir prófkjör og alþingiskosningar vorið 2007:

 

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. Ákvæði laganna um prófkjör taka þó ekki gildi fyrr en 1. júní 2007.

 

Minnt skal á að löggjafinn er sá sami og stjórnarskrárgjafinn nema hvað stjórnarskrárbreytingar þarf að samþykkja tvívegis með alþingiskosningum á milli; hér er því enn ein birtingarmynd þess að meðan ekki er sett á sérstakt stjórnlagaþing hefur Alþingi sjálfdæmi um eigin starfsumhverfi. 

 

Þar sem fjölmiðlar virðast nú sjá - og flokkar sjá eftir - að lögin voru annmörkum háð og komu full seint til er rétt að minna á eftirfarandi ákvæði í lögunum:

 

Forsætisráðherra skal eigi síðar en 30. júní 2010 skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að endurskoða lög þessi og framkvæmd þeirra.

 

Kannski rétti tíminn sé núna.


Varla mútur en...

Nú undir lok páskahátíðar höfðu háskólamenn, blaðamenn og stjórnmálamenn bæst í hóp þeirra sem tóku sér opinberlega sama orð í munn og bloggarar og almenningur höfðu áður notað: 

 

mútur!

 

Í kjölfar frétta undanfarna viku af styrkjum - einkum árið 2006 - til stjórnmálaflokka er spurningin hvort lagaskilyrði fyrir "mútum" eru uppfyllt. Lagahugtakið "mútur" er e.t.v. ekki alveg einhlítt. Auk banns í kosningalögum við því að bera fé á kjósendur falla að mínu mati undir almennan skilning á "mútum" eftirfarandi ákvæði í almennum hegningarlögum frá 1940:

 

Ef opinber starfsmaður heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.

 

Hafi opinber starfsmaður, í öðrum tilfellum en lýst er hér að framan, misnotað stöðu sína sér eða öðrum til ávinnings eða til þess að gera nokkuð það, sem hallar réttindum einstakra manna eða hins opinbera, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

 

Ekki verður séð að önnur ákvæði XIV kafla almennra hegningarlaga komi til álita þegar hugtakið "mútur" er notað þó að ég hafi ekki séð það tilfært til refsilaga í umræðu undanfarna viku.

 

Án þess að ég vilji sýkna (frekar en dæma) neinn án dóms og laga - enda ekki til þess bær - virðist mér við greiningu á þessum ákvæðum og lestur á athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til almennra hegningarlaga a.m.k. frekari upplýsingar þurfa að koma til ef halda á því fram með nokkrum rétti að uppfyllt séu lagaskilyrði fyrir "mútum" eins og haldið hefur verið á lofti síðustu daga - í opinberri umræðu og víðar.

 

Það er hins vegar að mínu mati ekki aðalatriðið - heldur það að lengi vel skorti lagareglur um fjármál stjórnmálaflokka. Meginatriðið er að flestir - þ.m.t. fyrrverandi og núverandi forsvarsmenn og aðrir fulltrúar umræddra stjórnmálaflokka - eru sammála - eftirá að hyggja - að þetta hafi ekki verið viðeigandi. Ég hef ítrekað fjallað um lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra og fjallaði m.a. um væntanleg áhrif þeirra við gildistöku fyrir rúmum tveimur árum í fyrsta neytendapistli mínum.

 

Á morgun mun ég hins vegar freista þess að fjalla um hugsanlegar afleiðingar þess að slík lög voru ekki í gildi - í bakspeglinum.


mbl.is Allt of háir styrkir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sértækar ákvarðanir dómara eða almenn leiðrétting af hálfu stjórnvalda

Slík fjöldamálsókn var að mínu mati fyrirsjáanleg - þó að því miður skorti úrræði í lög til eiginlegrar hópmálsóknar eins og ég hef oft vakið máls á. Að mínu mati eru svo sterk rök fyrir slíkri málsókn og svo hæpið að neytendur beri einir áhættuna og allt tapið af óvæntu gengishruni og óvenjuhárri verðbólgu að réttara væri að kjörnir fulltrúar tækju almenna ákvörðun um slíka leiðréttingu.

 

Auk annarra röksemda neytenda er almenn leiðrétting af hálfu stjórnvalda æskilegri en að dómarar taki sértækar ákvarðanir um að jafna afleiðingar efnahagsáfallsins gagnvart neytendum.


mbl.is Málsókn til varnar heimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En ekki hvað?

Vitaskuld dró úr heildarstyrkjum fyrirtækja til stjórnmálaflokka þegar lög um fjármál stjórnmálasamtaka o.fl. tóku gildi 1. janúar 2007; sá var tilgangurinn - eða öllu heldur leiðin að því markmiði að jafna stöðu neytenda og fyrirtækja með því að gera stjórnmálaflokka síður háða styrkjum frá fyrirtækjum. Það er ekki síst gert með því að setja 300 þús. kr. hámark á slíka styrki.

Í staðinn kemur meiri styrkur úr ríkissjóði enda er litið svo á að eðlileg starfsemi stjórnmálaflokka sé mikilvæg - ef ekki nauðsynleg - fyrir lýðræðið.

Að forsögunni vék ég á persónulegum grunni í síðustu færslu minni og hef oft fjallað um lögin - m.a. í fyrsta neytendapistli mínum:

 

"Fjármál stjórnmálaflokkanna og hagsmunir neytenda

Í fyrsta talhorninu veltir talsmaður neytenda því fyrir sér hvort hagur neytenda vænkist og möguleikar á sjálfstæðum, íslenskum réttarbótum aukist nú þegar lög um fjármál stjórnmálaflokka hafa öðlast gildi."


mbl.is Fengu meiri styrki árið 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Játning talsmanns - og fyrrum lögmannsfulltrúa - og yfirbót

Best er að ég geri líka játningu úr því að upp er runnin tími yfirbóta í kjölfar upplýsinga um vafasama risastyrki til ráðandi stjórnmálaafla. Nú undir kvöld sótti ég fund um meinta spillingu varðandi Byr þar sem fulltrúi hollvina skoraði á alla að koma út úr skápnum og upplýsa um óhreint mjöl í pokahorninu þaraðlútandi.

 

Fyrir rúmum áratug starfaði ég sem ungur lögfræðingur (frekar en laganemi) fyrir lögmann, sem var handgenginn þáverandi stjórnarherrum, og fékk auk hefðbundinna lögmannsstarfa ýmis tilfallandi verkefni í þágu þeirra. Mér virðist ég ekki rjúfa trúnað samkvæmt siðareglum með því að upplýsa eftirfarandi.

 

Eitt verkefnið var að rökstyðja - gegn eigin sannfæringu því að ég hef lengi talið að stjórnmálaöfl eigi að vera óháð fjárhagslegum hagsmunum, einkum fyrirtækja - hvort það stæðist stjórnlagafræðilega að setja reglur um fjármál stjórnmálaflokka. Freistaði ég þess að rökstyðja, eins og farið var fram á, að ekki væri unnt vegna ákvæða stjórnarskrár um stjórnmála- og félagafrelsi að setja slíkar reglur í lög. Núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, var þá sem endranær einn helsti talsmaður þess að slík lög yrðu sett. Með lagarökum mínum kann ég að hafa átt þátt í að tefja slíka löggjöf - og harma það. Lögin voru loks samin fyrir rúmum þremur árum að tilhlutan þáverandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, undir forystu þáverandi framkvæmdarstjóra Framsóknarflokksins, Sigurðar Eyþórssonar.

 

Eftirá að hyggja kann ég með umdeilanlegri röksemdafærslu minni um stjórnlagafræðilegt gildi slíkra laga löngu áður að hafa brotið gegn 1. gr. siðareglna lögmanna sem hljóðar svo:

 

Lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti.

Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

 

Það er þó matsatriði enda ber lögmanni samkvæmt 8. gr. sömu siðareglna að vinna starf óháð eigin stjórnmálaskoðun og forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum; lögmaður þarf sem sagt vitaskuld ekki að vera hlynntur glæp til þess að verja sakamann; þetta verkefni fór þó óneitanlega gegn sannfæringu minni - þá sem nú. Til þess að fyrirbyggja misskilning tek ég fram að ég þáði ekki sérstakar greiðslur fyrir þessa vafasömu röksemdafærslu en mánaðarlaun mín sem lögmannsfulltrúi voru 150.000 - hundraðogfimmtíuþúsund - kr. fyrir ómældan tímafjölda.

 

Síðan hef ég í meira en áratug - vegna áhuga míns og sannfæringar en kannski innst inni líka sem yfirbót - unnið eingöngu í þágu launafólks og neytenda auk þess að styðja það með ráðum og dáð - innan flokks sem utan - að sett yrðu lög um fjármál stjórnmálaflokka. Þau lög hef ég fjallað um á þessari bloggsíðu nokkrum sinnum, sbr. t.d. síðustu færslu mína, og skrifaði um þau fyrsta neytendapistilinn á vefsíðu talsmanns neytenda í janúarbyrjun 2007.

 

Með þessu vona ég að ég hafi gert bæði iðrun og yfirbót.


mbl.is Skilað til lögaðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög, siðferði og hagsmunir neytenda

Þó að FL Group hafi ekki verið á neytendamarkaði minnir þessi frétt - það að þetta sé frétt, að hægt sé að segja frétt um eitthvað sem stæðist ekki lög í dag - á hve mikil breyting felst að líkindum í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Lögin eru til þess fallin að verja neytendur fyrir því að stjórnmálaflokkar séu á ósýnilegu framfæri fyrirtækja.

 

Nýlega áréttaði ég tímamótin sem felast í þessum lögum og velti fyrir mér hvort lögin næðu tilgangi sínum að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum. Meginatriði laganna rakti ég svo:

 

  • Hámark árlegs stuðnings einstaklings eða lögaðila til stjórnmálaflokka eða frambjóðenda verður 300 þús. kr. á ári.
  • Stuðningur hins opinbera verður aukinn í  staðinn.
  • Óheimilt er að taka við öðru framlagi frá opinberum aðilum.
  • Óheimilt er taka við framlögum frá óþekktum gefendum.
  • Óheimilt er að taka við framlögum frá opinberum fyrirtækjum.
  • Óheimilt er að taka við framlögum frá erlendum aðilum.
  • Flokkar og frambjóðendur hafa upplýsingaskyldu gagnvart Ríkisendurskoðun.
  • Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi.
  • Ríkisendurskoðun fer yfir reikningsskil stjórnmálaflokka og frambjóðenda.
  • Brot gegn lögunum geta varðað refsingu.

 

Upphaflega pistilinn um lögin og líklega þýðingu þeirra má lesa hér.


mbl.is 30 milljóna styrkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

6 mánuðir frá neyðarlögum

Í dag er rétt hálft ár frá því að neyðarlög voru sett til þess að bjarga virkni fjármálakerfisins - sem tókst blessunarlega. Heimilin bíða hins vegar enn eftir almennum aðgerðum. Sama kvöld og neyðarlögin voru sett birti ég á vefsíðu embættisins í opinberri umsögn um frumvarp til neyðarlaga það mat mitt af því tilefni að festa þyrfti gengi krónu vegna hagsmuna og réttinda neytenda - bæði sem sparifjáreigenda og skuldara. Ella væri unnt að bera við forsendubresti í lánssamningum.

 

Í umsögninni sagði:

 

Af framangreindum sökum telur talsmaður neytenda rétt að gengi íslensku krónunnar - sem hefur samkvæmt alþjóðlegum og innlendum fréttum ekki verið í eðlilegri verðmyndun síðan í síðustu viku - verði fastsett með sömu lögum sem heimila ríkisvæðingu bankakerfisins og íbúðarlána í heild. Er ljóst að gengishrun undanfarinna vikna í kjölfar gengisfalls undangenginna mánuða veldur framangreindum hagsmunum neytenda gríðarmiklu tjóni grípi löggjafinn ekki inn í samhliða þessari neyðarlöggjöf.

 

Að öðrum kosti telur talsmaður neytenda hugsanlegt að forsendubrestur hafi orðið hvað varðar þá samninga sem standa að baki framangreindum lánsviðskiptum - sem frumvarpið gerir ráð fyrir að ríkið yfirtaki.

 

Í tilefni dagsins auglýsa Hagsmunasamtök heimilanna í dagblöðum að þau muni eftir tvær vikur birta svör stjórnmálaflokkanna í fjórum liðum um hvað flokkarnir hyggist gera í þessu skyni. Má í því sambandi minna á að fyrir tæpum tveimur mánuðum stóðu talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna að því ásamt fleirum að kalla eftir almennum aðgerðum frá nýmyndaðri ríkisstjórn til lausnar efnahagsvanda heimilanna þar sem kjarninn var þessi:

 

Til að koma í veg fyrir að fjöldi lántakenda lendi í þroti og jafnframt stuðla að því að fasteignamarkaður fari aftur af stað þarf að auki að beita almennum aðgerðum í eitt skipti. Til þarf að koma veruleg og almenn niðurfærsla höfuðstóla íbúðarveðlána vegna verulegs og óvænts gengishruns íslensku krónunnar og þarafleiðandi hækkunar gengistryggðra og verðtryggðra lána í kjölfar verðbólgu undanfarna 18 mánuði.

 

Þar sem engar almennar aðgerir hafa komið frá stjórnvöldum enn - sex mánuðum eftir neyðarlögin - mun talsmaður neytenda útfæra tillögur til lausnar sem verið hafa í vinnslu allan þennan tíma.


mbl.is Enn veikist krónan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.