L'État, c'est moi?

Í dag hafa heyrst fréttir af þremur álitamálum sem tengjast þeirri spurningu hvort lögaðili (t.d. stofnun) geti orðið vanhæfur sem slíkur vegna aðgerða eða aðstöðu þess sem er í forsvari fyrir hann eða öfugt.

 

Ríkið það er ég

 

er haft eftir Lúðvík 14. Frakkakonungi sem lýsir öðrum þræði þeirri hugsun að gjörð og ábyrgð æðsta stjórnanda sé lögð að jöfnu við gjörð og ábyrgð þess lögaðila sem hann stýrir.

 

Í fyrsta lagi var sögð sú frétt að laganefnd Lögmannafélags Íslands hefði í umsögn til allsherjarnefndar Alþingis lýst efasemdum um að rétt væri að skipa starfandi hæstaréttardómara í rannsóknarnefnd um bankahrunið þar sem það gæti vakið vafa um hæfi Hæstaréttar í tengdum málum síðar.

 

Í öðru lagi er enn fjallað um hvort endurskoðunarfyrirtækið KPMG geti talist hæft til að sinna á gagnrýninn hátt verkefnum fyrir skilanefnd gamla Glitnis - eins og það hefur gert í um tvo mánuði - í ljósi þess að fyrirtækið hafi séð um endurskoðun tengdra fyrirtækja.

 

Í þriðja lagi er deilt um hvort eðlilegt sé að menn, sem hafi verið í forsvari fyrir tiltekinn banka þegar bankinn var talinn hafa brotið gegn reglum um bankaleynd, geti nú talist hæfir til þess að vera í forsvari fyrir skilanefndir annarra banka.

 

Ég hef ekki hjá mér doktorsritgerð Páls Hreinssonar hæstaréttardómara um hæfisreglur í stjórnsýslurétti en í norrænum skaðabótarétti er talið að ábyrgð æðsta stjórnanda lögaðila jafngildi ábyrgð lögaðilans sjálfs. Sömuleiðis er talið að uppsöfnuð ábyrgð margra starfsmanna - jafnvel óþekktra starfsmanna - lögaðila geti leitt til ábyrgðar lögaðilans sjálfs.

 

Lögfræðin er því oft rökrétt og niðurstöður skynsamlegar; svarið við spurningunni í upphafi er því jákvætt og þarf ekki að leita í stjórnskipunarréttinn til þess að sjá að ábyrgð getur verið fyrir hendi þó að forsvarsmaður beri ekki persónulega sök.


mbl.is KPMG vill rannsókn á störfum fyrir Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband