6 mánuðir frá neyðarlögum

Í dag er rétt hálft ár frá því að neyðarlög voru sett til þess að bjarga virkni fjármálakerfisins - sem tókst blessunarlega. Heimilin bíða hins vegar enn eftir almennum aðgerðum. Sama kvöld og neyðarlögin voru sett birti ég á vefsíðu embættisins í opinberri umsögn um frumvarp til neyðarlaga það mat mitt af því tilefni að festa þyrfti gengi krónu vegna hagsmuna og réttinda neytenda - bæði sem sparifjáreigenda og skuldara. Ella væri unnt að bera við forsendubresti í lánssamningum.

 

Í umsögninni sagði:

 

Af framangreindum sökum telur talsmaður neytenda rétt að gengi íslensku krónunnar - sem hefur samkvæmt alþjóðlegum og innlendum fréttum ekki verið í eðlilegri verðmyndun síðan í síðustu viku - verði fastsett með sömu lögum sem heimila ríkisvæðingu bankakerfisins og íbúðarlána í heild. Er ljóst að gengishrun undanfarinna vikna í kjölfar gengisfalls undangenginna mánuða veldur framangreindum hagsmunum neytenda gríðarmiklu tjóni grípi löggjafinn ekki inn í samhliða þessari neyðarlöggjöf.

 

Að öðrum kosti telur talsmaður neytenda hugsanlegt að forsendubrestur hafi orðið hvað varðar þá samninga sem standa að baki framangreindum lánsviðskiptum - sem frumvarpið gerir ráð fyrir að ríkið yfirtaki.

 

Í tilefni dagsins auglýsa Hagsmunasamtök heimilanna í dagblöðum að þau muni eftir tvær vikur birta svör stjórnmálaflokkanna í fjórum liðum um hvað flokkarnir hyggist gera í þessu skyni. Má í því sambandi minna á að fyrir tæpum tveimur mánuðum stóðu talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna að því ásamt fleirum að kalla eftir almennum aðgerðum frá nýmyndaðri ríkisstjórn til lausnar efnahagsvanda heimilanna þar sem kjarninn var þessi:

 

Til að koma í veg fyrir að fjöldi lántakenda lendi í þroti og jafnframt stuðla að því að fasteignamarkaður fari aftur af stað þarf að auki að beita almennum aðgerðum í eitt skipti. Til þarf að koma veruleg og almenn niðurfærsla höfuðstóla íbúðarveðlána vegna verulegs og óvænts gengishruns íslensku krónunnar og þarafleiðandi hækkunar gengistryggðra og verðtryggðra lána í kjölfar verðbólgu undanfarna 18 mánuði.

 

Þar sem engar almennar aðgerir hafa komið frá stjórnvöldum enn - sex mánuðum eftir neyðarlögin - mun talsmaður neytenda útfæra tillögur til lausnar sem verið hafa í vinnslu allan þennan tíma.


mbl.is Enn veikist krónan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gott mál.

Ömurlegt samt að það skuli lenda á aðilum eins og þér að vinna vinnuna sem stjórnvöld ættu að vera að gera. Og á meðan er haldið uppi málþófi í þinginu. Svo þykist þetta lið vera að vinna fyrir hagsmunum lands og þjóðar... iss piss!

Guðmundur Ásgeirsson, 6.4.2009 kl. 13:02

2 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Sæll Gísli.

Hvernig í ósköpunum getur þú sem opinber embættismaður, haldið því fram að "engar almennar aðgerðir hafi komið fram frá stjórnvöldum" frá því að neyðarlögin voru sett ???

Er þér ekki kunnugt um lög um greiðslujöfnun ?

Er þér ekki kunnugt um lög um greiðsluaðlögun ?

Er þér ekki kunnugt um lög sem lækkuðu álag vegna dráttarvaxta ?

Er þér ekki kunnugt um lög sem rymka heimildir Íbúðalánasjóðs til að bregðast við greiðsluvanda heimilana ?

Er þér ekki kunnugt um samkomulag stjórnvalda og fjármálastofnanna um að greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs gildi í öllum fjármálastofnunum ?

Er þér ekki kunnugt um lög sem frestuðu öllum nauðungarsölum fram í október ?

Er þér ekki kunnugt um lög sem lengdu aðfararfresti úr 15 dögum í 40 ?

Er þér ekki kunnugt um lög sem heimiuðu útgreiðslu séreignasparnaðar - 1 milljón fyrir einstaklinga og 2 fyrir hjón ?

Er þér ekki kunnugt um þegar ákveðna hækkun vaxtabóta um 2 milljarða og fyrirliggjandi lagafrumvarp um aðra 2 milljarða til viðbótar - samtals um 4 milljaðar eða 70% hækkun ?

Er þér ekki kunnugt um fyrirliggjandi frumvarp um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána ?

Ég hef hér nefnt helstu almennu aðgerðir þeirra ríkisstjórna sem starfað hafa á umræddu tímabili fyrir heimilin vegna skuldavanda þeirra, en þó ekki allar. Í ljósi þeirra hlýtur málflutningur þinn að vekja verulega furðu, svo ekki sé nú dýpra í árinni tekið.

Viljir þú nálgast upplýsingar um þessi mál bendi ég á daglega uppfærða verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar á island.is

Kveðja,

Hrannar Björn Arnarsson, 7.4.2009 kl. 00:10

3 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sæll Hrannar Björn; umrætt sameiginlegt ákall, sem var undirbúið í samvinnu nokkurra hagsmunaðila í janúar og febrúar, var sent þér fyrstum sem aðstoðarmanni forsætisráðherra áður en það var birt 11. febrúar sl. Var undanfari þess m.a. tilvísuð tilraun mín í kringum neyðarlögin til að hafa áhrif á hagsmuni neytenda í því sambandi.

Ég og þú höfum greinilega mismunandi skilning á hvað felst í almennum aðgerðum. Vissulega hef ég hef fylgst með í fjölmiðlum og með umsögnum til þingnefnda um sumar þessara aðgerða meðan á þingmeðferð stóð til Alþingis - mörgum afar jákvæðum umsögnum reyndar eins og kunnugt má vera því þær eru allar birtar á vefsíðu embættisins, www.talsmadur.is, eins og vonandi er almennt kunnugt; flestar umsagnir mínar eru kynntar sérstaklega á fréttasíðu embættisins í kjölfairð.

Þær aðgerðir, sem þú telur upp, eru vitaskuld flestar eða allar ákveðnar með almennum hætti - oftast lögum sem betur fer. Engin þeirra aðgerða, sem þú nefnir, hefur hins vegar að mati mínu almenn áhrif "til lausnar" eins og ég segi í færslunni - líkt og kallað var eftir af hálfu talsmanns neytenda 11. febrúar sl. ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna o.fl. eins og að framan greinir og vísað var til í færslunni. Ef þér hefur þótt skorta á hrósið segir einnig í upphafi ákallsins:

"Aðilar lýsa ánægju sinni

  • með áform nýrrar ríkisstjórnar um tímabundna löggjöf sem fresti fullnustugerðum gagnvart heimilum í landinu og
  • með væntingar um löggjöf um greiðsluaðlögun til þess að leysa á sértækan hátt vanda þeirra lántakenda sem þegar hafa lent í verulegum erfiðleikum."
  • Síðan hafa eins og kunnugt er fleiri aðilar bæst í hópinn sem kalla eftir almennum aðgerðum en ég hef haldið mér til hlés í umræðum um þær undanfarið þar sem þær eru því miður oft ómálefnalegu stjórnmálamarki brenndar - en svo var ekki framan af þegar ég, Hagsmunasamtök heimilanna, Búseti og Félag fasteignasala tókum höndum saman. Undanfarna daga hafa ýmsir hagfræðingar - innlendir sem erlendir bæst í hóp þeirra sem kalla eftir slíkum almennum lausnum.

    Þessar aðgerðir - sem þú nefnir og ég þekki til og gaf, sem sagt, jákvæðar umsagnir um þær sem mér gafst færi á að tjá mig um til þingnefnda - eru vissulega til bóta eins og umsagnir mínar og annarra sýna. Þær eru hins vegar flestar til lengingar eða frestunar vanda sem þarf að leysa og því ekki "til lausnar" fallnar að mínu mati. Hin sem vissulega er til lausnar - langþráð og jákvæð greiðsluaðlögun - er hins vegar ekki almenn því þar þarf sértæka meðferð í hundruða- eða að margra mati fremur þúsundatali og svo dómsúrlausn gagnvart þeim sem uppfylla skilyrði laganna - sem að minu mati eru mikil réttarbót miðað við venjulegt árferði. Þetta sértæka eðli væntanlegra laga var nefnt þegar í tilvitnuðum upphafsorðum ákallsins 11. febrúar sl. eins og ég árétta með tilvitnun í þau hér að ofan.

    Ég stend því við mjög meðvituð orð mín. Eins og síðast munt þú fyrstur frétta af útfærðum tillögum til lausnar af minni hálfu enda hef ég hugsað þær lengi og rætt við marga áður en þær fara til umsagnar stjórnvalda eða stjórnmálaflokka. Ég get hins vegar ekki - hvað sem endurteknum þrýstingi úr stjórnkerfinu líður - látið vera að upplýsa almenning um tilraunir mínar til þess að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda, bregðast við brotum gegn þeim og ræða opinberlega eftir þörfum áform um viðbrögð eða tillögur til úrbóta - eins og mér er skylt að lögum. Sömu lög kveða einnig á um að talsmaður neytenda sé óháður fyrirmælum frá öðrum og veitir ekki af.

Gísli Tryggvason, 7.4.2009 kl. 01:34

4 Smámynd: Stefán Jóhann Arngrímsson

Sæll Gísli,

Í hvert skipti sem ég borga af húsnæðisláni mínu þá horfi ég með hryllingi á verðbæturnar sem bætast aftan á lán mitt. Ég þyrfti væntanlega að vera á bankastjóralaunum svo ég næði að borga þær ásamt afborgun og vöxtum. Tók rúmar 14m að láni í lok desember 2004, nú stendur þetta í 20m og lánið því að nálgast að verða hærra en virði eignarinnar.

Það eru allir sammála um að forsendur samninga sem íbúðarlánin byggðust á eru fyrir löngu brostnar. "Almennar aðgerðir" eru því einungis leiðrétting á því ójafnvægi á milli samningsaðila sem nú er.

Frábært starf sem þú hefur unnið fyrir okkur, þú átt heiður skilið.

Stefán Jóhann Arngrímsson, 8.4.2009 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.