Sátt um niðurfærslu skulda

Æ fleiri skilja að við neytendum blasir raunverulegur vandi vegna forsendubrests lána í kjölfar efnahagshruns. Rétt ár er frá þroti Lehmans-bankans. Í kjölfarið varð allsherjar efnahagshrun á Íslandi. Áhrifin eru – eins og við náttúrhamfarir – óháð efnahag og tekjum neytenda en vandinn er af manna völdum. Lausnin er einnig í mannlegu valdi.



Ýmsir hafa frá upphafi lagt til efnislegar lausnir:

Almennar lausnir

  • Hagsmunasamtök heimilanna, Búseti o.fl. vilja færa aftur verðtryggingu og leiðrétta gengistryggð lán.
  • Þingflokkar og þingmenn vilja færa niður skuldir, oft með tölulegu hámarki. 

     

Frestun og sértækar aðgerðir

Stjórnvöld hafa til þessa ekki lagt fram almennar lausnir en fryst skuldir og frestað fullnustu auk sértækra lausna. Sama gildir um stærstu samtök launafólks og neytenda. Í vikunni hefur óformlegur samráðshópur um þörf á samræmdum lausnum fundað með þessum samtökum, stjórnvöldum og þingflokkum en hópurinn sendi fyrst frá sér sameiginlegt ákall um almennar aðgerðir 11. febrúar sl. (sjá www.talsmadur.is)  

 

Gerðardómur – skjót málsmeðferð til lausnar

Sem talsmaður neytenda hef ég ekki lagt fram efnislegar tillögur heldur lagt áherslu á réttláta málsmeðferð til lausnar. Strax fjórum vikum eftir hrunið nefndi ég hjá þingnefnd að taka mætti íbúðarlán eignarnámi og færa niður eftir mati gerðardóms. Stjórnvöld virtust lengi vinna að lausn, a.m.k. vegna gengistryggðra lána, og dró ég því að árétta þá tillögu en gerði það formlega eftir þingkosningar.

 

Ein rök fyrir tillögu minni eru að það getur kostað neytanda allt að 2 millj. kr. og tekið um tvö ár að fá dómsúrlausn.

 

Eftir 4ra mánaða bið eftir viðbrögðum sendi ég 25 bönkum og lánveitendum sambærileg tilmæli, þ.e. að samið verði um að gerðardómur leysi úr ágreiningi um gengis- og verðtryggð lán vegna forsendubrests o.fl. lagaröksemda, þ.m.t. að óheimilt hafi verið að veita gengistryggð lán. Þess má geta að hagfræðingar – einkum að utan – hafa nú loks tekið undir að verðtrygging sé óréttmæt gagnvart neytendum.

 

Flestir sjá nú að hið hefðbundna réttarkerfi er ekki fært um að takast á við vandann og að saklausum neytendum sé ekki bjóðandi ígildi gjaldþrots og skerðing fjárræðis. 
 

Seðlabankinn tekur loks undir

Í fyrradag hélt Seðlabanki Íslands áhugaverða málstofu þar sem viðurkennt var – út frá reynslurökum úr yfir 100 kreppum – að “endurskipulagning skulda” væri efnahagsleg nauðsyn. Ef ekki koma heildstæðar lausnir fer verr fyrir þjóðfélagið allt. Ég tek enn undir það og árétta að samræmd niðurfærsla skulda er einnig siðferðisleg og lagaleg krafa neytenda í kjölfar ófyrirséðs efnahagshruns.


 

Höfundur er talsmaður neytenda og aðjúnkt

í neytendamarkaðsrétti við lagadeild Háskólans í Reykjavík.


 

Talsmaður neytenda birti í dag [17.9.09] eftirfarandi grein

í Viðskiptablaðinu - einnig sem aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

]


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Gott að málin virðast vera að þokast í rétta átt. Eitt er þó sem ég vil spyrja um. Hvað með þá gjörnunga sem þegar hafa farið fram, eins og varðandi bíla sem hirtir hafa verið af fólki og íbúðir sem hafa farið á nauðungarsölu. Er möguleiki á að fara fram áriftun slíkra hluta.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.9.2009 kl. 17:00

2 Smámynd: Halldór Örn Egilson

Komdu sæll.

Hvenær ætlið þið framsóknarmenn að gera ykkur grein fyrir því að almenningur hefur enga trú á þessum skuldaniðurfærsluhugmyndum ykkar ?

 Þú gætir spurt, af hverju ??? 

Jú, ástæðan er sú,að sé tillit tekið til reksturs framsóknarmanna á ríkissjóði og undanfarinn hálfan annan áratug, samt með mjög svo óheilbrigðu aðgengi framsóknarmanna að fjármálastofnunum, þá má öllum bærilega greindum einstaklingum ljóst vera að framsóknarbjánar hafa á hlutfallslega mestu að hagnast varðandi skuldaniðurfellingu.

Fyrir þér kann þetta að virðast opinbert leyndarmál, en ég held samt ekki.

Ekki reyna að þræta þar fyrir. Þú kannt að vera aðjúnkt í einhverjum neytendamarkaðsrétti innan vébanda Viðskiparáðs (innan HR) en sjálfur er ég með bæði meistarapróf í stjórnmála- og hagfræði, án mats nokkurs mats þar á milli.

Sé mig þó ekkert til þess knúinn að melda það sérstaklega líkt og þú kýst að básúna þitt.

Fyrir mér og svo ótalmörgum öðrum ert þú einungis eins og hve annar framsóknarvitleysingur, á engan hátt marktækur.

Halldór Örn Egilson, 23.9.2009 kl. 00:08

3 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sæll Halldór Örn.

Maður með allt að 5 háskólagráður hlýtur að hafa kynnt sér tillögur mínar á www.talsmadur.is - en að þeim stendur Framsóknarflokkurinn ekki enda hafa tillögur talsmanns neytenda um gerðardómslausn sérstöðu sem tillögur um málsmeðferð gagnvart mörgum efnislegum tillögum, þ.m.t. tillögum Framsóknarflokksins - sem ég hef ekki tekið undir.

Titilinn með greininni nefndi ég þar sem greinin var birt fyrir tilstilli Háskólans í Reykjavík. Varðandi það á hverju almenningur hefur trú gætirðu kynnt þér skoðanakönnun Capacent sem birt var í gær á vefsíðu Hagsmunasamtaka heimilanna: http://www.heimilin.is/varnarthing/.

Gísli Tryggvason, 23.9.2009 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.