Væntanleg ESB-aðild stærsta neytendamálið

Að öðrum málum ólöstuðum er væntanleg full aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) - eftir 15 ára aukaaðild - ótvírætt stærsta og að mínu mati eitt mikilvægasta neytendamálið sem við neytendum á Íslandi blasir í náinni framtíð; ég skrifa "væntanleg" því að aðild hlýtur jú að vera takmarkið með aðildarviðræðum sem ríkisstjórnin mun gera tillögu um til Alþingis. Eins og ég gat um í fyrradag að til stæði og byrjaði á í gær ætla ég smám saman að kynna þau neytendamál sem er að finna í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar - bæði berum orðum og í raun. Að þessu sinni tek ég sterkt til orða og á við að þetta sé ekki aðeins stærsta og mikilvægasta neytendamálið í  samstarfsyfirlýsingunni - heldur yfirleitt. Þarf þá ekki að skilja hugtakið "neytendamál" sérlega rúmum skilningi.

 

Þetta mat mitt gaf ég út opinberlega fyrir rúmum mánuði að gefnu tilefni, þ.e. sem svar við nokkrum spurningum opinberrar nefndar um áhrif mögulegrar ESB-aðildar Íslands á hagsmuni og réttindi neytenda. Eftirfarandi er útdráttur úr frétt á vef talsmanns neytenda úr svarinu sem lesa má í heild hér:

 

Talsmaður neytenda telur réttindi neytenda lítið breytast þó að aukaaðild Íslands að ESB yrði að fullri aðild. Öðru máli gegni hins vegar um kjör neytenda, sem myndu stórbatna - sem og möguleikar íslenskra aðila til þess að bæta stöðu neytenda hérlendis.

 

Mér hefur í einstaka tilvikum verið legið á hálsi fyrir að rökstyðja lítt í bréfinu þessa skoðun mína en ég byggi mat mitt á skýrslum, úttektum og málflutningi samtaka neytenda og launafólks undanfarin ár auk reynslu minnar af starfi í þágu neytenda og launafólks undanfarinn rúman áratug. Úr því get ég bætt í athugasemdum ef einhver efast um þessi meginatriði - að kjör neytenda stórbatni og möguleikar til að bæta stöðu neytenda hérlendis. Þá hef ég verið gagnrýndur fyrir að með þessu svarbréfi stundi ég pólitík. Því er til að svara að vart hefði verið hægt að réttlæta synjun opinbers embættismanns á borð við talsmann neytenda á að svara spurningum frá stjórnskipaðri nefnd um þróun Evrópumála um mat á fagsviði embættisins auk þess sem talsmaður neytenda  hefur m.a. það lögákveðna hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og stuðla að aukinni neytendavernd; ef ég er spurður - og ég var spurður - er fátt að mínu mati betur til þess fallið en (full) aðild að ESB. Þó að ekkert sé við það að athuga að andstæðingar ESB-aðildar Íslands (og eftir atvikum efasemdarfólk) sé ósammála framangreindu mati mínu tel ég fulla þverpólitíska sátt um þann skilning á lögbundnu hlutverki talsmanns neytenda að hann hafi neytendapólitísku hlutverki að gegna.

 

Um ástæður og forsendur svars míns og mats má lesa meira í  fréttinni og svarbréfinu sjálfu en eftirfarandi er eitt af því sem ég teldi batna til handa neytendum með fullri ESB-aðild Íslands:

 

Réttur til eigin innflutnings neytenda mun batna

Hins vegar kveður talsmaður neytenda líklegt að réttur neytenda aukist - a.m.k. í raun - hvað varðar innflutningsverslun eins og ráða megi af tillögu talsmanns neytenda til fjármálaráðherra frá ágúst 2008 um niðurfellingu virðisaukaskatts og tolls af sendingum að lágu verðmæti.


mbl.is Sigmundur Davíð: Kom mjög á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Gísli, er ekki öruggt að við fáum betra veður ef við göngum inn í Evrópusambandið?

Páll Vilhjálmsson, 13.5.2009 kl. 23:50

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

Jú, Páll; það tel ég einnig mjög líklegt.

Þetta mat mitt - sem varðar reyndar aðeins neytendamál í afar rúmum skilningi - styð ég við tvenns konar rök; annars vegar reynslurök því að ég hef ég í öllum þeim ESB-ríkjum sem ég hef komið í - nánast óháð árstíðum - ávallt upplifað betra veður en hérlendis, að meðaltali a.m.k. Hins vegar styð ég svar mitt til þín við þá náttúrufræðilegu spá að veður hér batni í flestum skilningi - a.m.k. m.t.t. hitastigs - áður en Ísland verður loks fullgildur aðili að ESB - þ.e.a.s. vegna gróðurhúsaáhrifa, svonefndra.

Eini veikleikinn í þessu svari - og spurningunni - er að deila má um hvað telst gott - og "betra" - veður; sjálfur er ég t.a.m. mjög hrifinn af mikilli rigningu af ástæðum sem ég get tilgreint í trúnaði.

Gísli Tryggvason, 13.5.2009 kl. 23:57

3 identicon

Við erum aukaaðilar að innri markaðnum í gegn um EES. Má raunar vera að við tökum upp 80% af öllum lögum og reglugerðum honum tengdum.

ESB eins og það leggur sig er hinsvegar töluvert umfangsmeiri pakki eins og lögfræðingurinn hlýtur að vita nema hann hafi sofið af sér því fleiri tíma.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 23:58

4 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Aðild að ESB út frá neytendasjónarmiðum er mjög þröngt sjónarmið og er í raun mjög sjálfmiðað sjónarhorn í heildarsamhenginu en er samt sjónarmið út af fyrir sig. Aðild að ESB snýst um hagfræðilega, andlega og pólitíska framtíðarsýn.

Fríverslunar markaðshyggju og pólitískt bandalag.

Eða sjálfræði, sjálfstæði, lýðræði, frelsi til ákvarðanna og þjóðhagfræði og fleira.

Vilhjálmur Árnason, 14.5.2009 kl. 00:07

5 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sæll Hans; ég er sammála fyrra mati þínu um 80% - sem er töluvert nær lagi en þau 6% sem sumir andstæðingar ESB-aðildar héldu fram og ég andmælti hér snemma á bloggferli mínum.

Hinu get ég heldur ekki verið ósammála að "ESB eins og það leggur sig er hinsvegar töluvert umfangsmeiri pakki" en ég held að sú röksemd varði vart beina neytendahagsmuni - þ.e.a.s. ekki þær ástæður andstöðu og efasemda við ESB-aðild Íslands sem ég hef heyrt og séð og ímyndað mér undanfarin ár. Loks er rétt sú ályktun þín að ég er löglærður - en hvað sem svefni líður var lítil formleg kennsla við lagadeild HÍ um ESB er ég nam þar á 10. áratugnum og lærði ég því líklega meira um það eftir nám og er ég las lög við Hafnarháskóla á árum áður.

Gísli Tryggvason, 14.5.2009 kl. 00:07

6 identicon

Ég er ekkert sérlega ánægður með þessa færslu þína því hún er pólitískur áróður. Fólk sem treystir á þig sér þig í öðru ljósi eftir þetta pog þú ert t.d ekki minn neytendafulltrúi lengur. þú ert bara maður úti í bæ að misnota opinbert hlutverk þitt.....

Þér væri nær að byrja á að grisja heimagarðinn í verðlagsmálum en við eigum hér apparat sem kallast neytendastofa og við skulum ræða aðeins um hana sem hagsmunastofnun neytenda. Það eru einfaldlega til aðrar aðferðir en ESB til að lækka vöruverð á íslandi og sú fyrsta væri að koma neytendastofu uppúr stöðnuðu hjólfari sínu sem hefur skemmt þjóðfélagið okkar með algjöru og fullkomnu andvaraleysi.

Ég hef sent neytendastofu u.þ.b. 20 kvartanir vegna neytendamála en hún ansar mér í engu, lagar ekkert, gerir ekkert og hefur engan áhuga. Eftirlit þeirra er slappt eins og neytendasamtökin og niðustaðan er sú að Baugsfeðgar sköðuðu hér dýrasta smásöluland heims í gegnum fákeppni.

Og heldurðu virkilega að vöruverð lækki þrátt fyrir tollabreytingu, lækkaði verð á veitingahúsum þegar vaskurinn lækkaði. ónei.

Þið sem starfið við neytendamál og hafið aldrei migið á bakvið búðarborð vitið nákvæmlega ekkert hvað er í gangi á þessum markaði. Þið forðist að skoða rekstur fyrirtækja, afla uplýsinga innar greinarinnar eða stinga nefinu á erfiða staði yfirhöfuð.

Ísland er í djúpum skít vegna fólks eins og þín, neytendastofu, fjármalaeftirlits og samkeppniseftirlits sem sáuð til þess að örlítill hópur þjóðarinnar gat valtað yfir allt og alla án nokkurrar marktækrar athugasemdar.

Svo kemurðu nú sem ESB sinni og vill láta samtök þau skeina kollegum þínum í eftirlitsgeiranum. Selja landið mitt, fullveldið, virðinguna og stoltið vegna ömurlegrar ómennsku fárra aðila. Nei takk.

Á sama tíma ætlarðu að þiggja laun frá ríkinu sem einhverskonar fulltrúi neytenda og réttindabaráttumaður þeirra. Nei, þú ert ekki trúanlegur lengur.

Ef þú villt virkilega laga hlut neytenda þá skaltu vinna gegn óhæfum eftirlitsstofnum í stað þess að vinna gegn sjálfu lýðveldinu.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 00:10

7 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sæll Vilhjálmur og takk fyrir síðast. Ég er sammála þér um að neytendasjónarmiðið er ekki það eina en ósammála um að það sé þröngt; það er hins vegar það eina sem mér er falið að fjalla sérstaklega um og því er ég heldur ekki á því að það sé sjálfmiðað, ef ég skil þig rétt. Frá hinum sjónarhólunum hef ég skoðun sem við getum rætt næst þegar við hittumst.

Gísli Tryggvason, 14.5.2009 kl. 00:11

8 Smámynd: Sigurbjörn Svavarsson

Með þessari pólitísku yfirlýsingu þinni þá átt þú að segja af þér sem talsmaður neytenda. Þú hefur enga stöðu sem slíkur að lýsa því yfir.

Með þessu skilur þú ekki á milli eigin skoðana og hagsmuna neytenda í þessu máli sem eru alls ekki ljósar. Þess vegna átt þú að segja af þér sem talsmaður neytenda.

Sigurbjörn Svavarsson, 14.5.2009 kl. 00:31

9 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Ég tel að landsmenn hafi verið settir í hagsmunamat í stað þess að velja framtíðarsýn og pólitíska afstöðu.

Ég skil auðvitað vel hlutverk þitt sem talsmaður neitenda en ég sem neitandi vil frekar umbyltingu nýverandi neitendaumhverfis. Þessvegna tók ég þátt í byltingu. Sem er greinilega ekki lokið.

Vilhjálmur Árnason, 14.5.2009 kl. 00:45

10 identicon

Væri þá ekki eðlilegra að tala um 15 ára aukaaðild hvað neytendamál snertir?

Ég hefði haldið að úr því að dómstólar munu víst geta haft lög og reglur ESB sem falla undir málefni innri markaðarins til hliðsjónar án þess að þau hafi verið innleidd á Íslandi þá væri það nauðsynlegt lögfræðingi að vita hvaða hlutar Evrópulaga snúa að innri markaðinum og hvaða hlutar gera það ekki.

Þá ætti að vera auðvelt að sjá nokkurn veginn stærðarmun pakkanna EES og ESB.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 03:14

11 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Er þetta sagt í nafni embættis talsmanns neytenda eða ertu að segja þetta sem einstaklingur?

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.5.2009 kl. 06:37

12 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þess utan kann að vera að Ísland sé að taka yfir meirihlutann af regluverki Evrópusambandsins er varðar innri markaðinn - enda gerðumst við aðilar að honum með EES-samningnum. En sambandið er svo miklu víðfemara fyrirbæri en bara innri markaðurinn - og verður sífellt víðfemara. Evrópusambandssinnar héldu því þó lengi fram að við værum að taka yfir 70-90% af öllu regluverki sambandsins en hafa síðan flestir breytt þeim yfirlýsingum í 80% af regluverki innri markaðarins.

Hvað 6,5% töluna varðar þá var hún niðurstaða úttektar skrifstofu EFTA í Brussel 2005 og er engin ástæða til að ætla annað en að hún hafi verið faglega unnin þó það henti auðvitað Evrópusambandsinnum að gera hana sem mest trotryggilega. Í því sambandi má geta þess að fullyrðingin um að við tækjum yfir 80% af öllu regluverki Evrópusambandsins kom frá Halldóri Ásgrímssyni í svokallaðri Berlínarræðu fyrir tæpum áratug.

Svokallaðir "Evrópusérfræðingar" tóku þessari tölu eins og heilögum sannleika allt þar til 6,5% talan kom fram. Þá allt í einu sáu þeir ástæðu til að "rannsaka" málið. Það þótti hins vegar algerlega ónauðsynlegt áður og fullkomlega ásættanlegt að taka einhverja yfirlýsingu stjórnmálamanns sem góða og gilda án nokkurra rannsókna - enda hentaði yfirlýsing Halldórs pólitískri afstöðu þeirra sjálfra einkar vel.

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.5.2009 kl. 06:48

13 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Svo má að lokum ekki gleyma því að neytendur eru líka t.a.m. kjósendur og innganga í Evrópusambandið myndi ljóslega þýða að pólitískt vægi hvers einstaklings hér á landi myndi minnka stórkostlega og þeir sem raunverulega stjórnuðu landinu væru ekki aðilar sem íslenzkir kjósendur kysu til þess heldur stjórnmálamenn sem aðrir kysu en þó fyrst og fremst embættismenn sem enginn kysi.

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.5.2009 kl. 06:51

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Upplýsing af hálfu "umboðsmanns neytenda" ætti fyrst og fremst að snúast um hvað Íslenskir neytendur fá við inngöngu í "Sambandið" sem Íslenskur löggjafi getur ekki tryggt þeim við viðeigandi lagasetningu á Alþingi Íslendinga?

Hver er sá ávinningur sem aldrei getur náðst annars staðar en í "Sambandinu"?

G. Tómas Gunnarsson, 14.5.2009 kl. 13:56

15 Smámynd: Theódór Norðkvist

Einangrunarsinnar fyllast strax vandlætingu og hrópa "samsæri, samsæri" þegar embættismenn eða forvígismenn aðila á vinnumarkaði dirfast að lýsa skoðun sinni á ESB.

Ég spyr á móti, segir það ekki ýmislegt um kosti ESB-aðildar að formaður ASÍ, Samtök iðnaðarins, formaður Rafiðnaðarsamband Íslands og talsmaður neytenda eru allir hlynntir aðild?

Maður hefði haldið að þessir aðilar hefðu kynnst sér málið allavega eitthvað.

Einu rökin sem ég heyri frá yfirlýstum andstæðingum ESB er að það er líka atvinnuleysi á Spáni og evran sé að hruni komin.

Síðan segja þeir að við missum hagstjórnartækin, sem eru gengisfelling og óðaverðbólga til að éta upp allar lífskjarabætur sem stéttarfélögin kreista undan blóðugum nöglunum á hinu opinbera og fyrirtækjum.

Hefur þeim tækjum verið stýrt gáfulega undanfarin ár og áratugi? Hver er árangurinn?

Theódór Norðkvist, 14.5.2009 kl. 14:04

16 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Ég legg til að þessum Hirti verði meinað að leggja athugasemdir inn á blogg þar til hann opnar fyrir athugasemdir við eigin bloggsíðu. Hann er einhliða áróðursmaskína af hortugu og hrokafullu tagi.

Páll Geir Bjarnason, 14.5.2009 kl. 14:17

17 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Gísli

Ég er sem einstaklingur fyllilega sammála þeim sjónarmiðum þínum sem Talsmanns Neytenda að full aðild að ESB sé mesta hagsmunamál neytenda á Íslandi. Þar verið að tala um verð lánsfé, mat og nýlenduvörum til heimilis og margra annarra þátta. Þeir sem kjósa að sjá þetta ekki, eru ekki að hugsa um hag almennings í landinu. Þar liggur að mínu mati  að baki gömul hugsun í bland við þrákelkni og það sjónarmið að það sé niðurlæging í því fólgin að skipta um skoðun

Hólmfríður Bjarnadóttir, 14.5.2009 kl. 22:28

18 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sælir félagar og þakka ykkur athugasemdir og andmæli - sem kannski er of langt mál að svara öllum. Kjarninn er þó að ég tel mér rétt - ef ekki skylt - að segja skoðun mína á hvað sé gott fyrir neytendur án þess að verða fyrir landráðabrigslum og uppsagnarkröfum. Þöggun tel ég ekki standast - ekki heldur gagnvart embættismönnum. Einu beina spurningin til mín sem ég les út úr athugasemdunum er annars vegar spurning Hjartar hvort ég skrifi sem einstaklingur eða í embættisnafni; ég hef svaraði því áður á lögfræðilegum nótum og segi nú að erfitt sé að greina þar á mili eins og augljóst má vera. Hins vegar eru spurningar G. Tómasar um "hvað Íslenskir neytendur fá við inngöngu í "Sambandið" sem Íslenskur löggjafi getur ekki tryggt þeim við viðeigandi lagasetningu á Alþingi Íslendinga? [og] - Hver er sá ávinningur sem aldrei getur náðst annars staðar en í "Sambandinu"?" Svar mitt við fyrri spurningunni er 100 saga íslensks löggjafarfullveldis og við síðari spurningunni þetta: það kemur í ljós í aðildarviðræðum.

Gísli Tryggvason, 15.5.2009 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.