Nánar um vanskilagjöld, seðilgjöld og önnur gjöld sem neytendur eru krafðir um - ýmist með réttu eða röngu

Í kjölfar umfjöllunar í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi um vanskilagjöld o.fl. gjöld rignir fyrirspurnum - bæði frá neytendum, kröfuhöfum, fjármálafyrirtækjum o.fl. - um hvað sé hið rétta í málinu varðandi vanskilagjöld, seðilgjöld, tilkynningar- og greiðslugjöld og jafnvel gjald fyrir innheimtuviðvörun. Það sýnir að full þörf er á frekari umfjöllun um málið og útskýringu á réttarstöðunni; eitthvað er þó þegar til af efni sem hér skal vísað á auk umfjöllunar í stuttu máli.

 

Mér virðist reyndar að kröfuhafar og fjármálafyrirtæki auðveldi neytendum og öðrum ekki að skilja málið þar sem stundum eru notuð misvísandi hugtök. Í mínum huga er í meginatriðum um að ræða þrenns konar gjöld - sem að einhverju leyti virðist ruglað saman:

 

  1. Vanskilagjöld eru gjöld sem ég hef lengi talið óheimil. Annars vegar vegna þess að oft skortir sambærilegan samningsgrundvöll fyrir þeim og lýst er varðandi seðilgjöld hér að neðan í 3. tl.  Hins vegar vegna þess að í vaxtalögum er kveðið á um staðlaðar skaðabætur - svonefnda dráttarvexti - fyrir að greiða peningaskuld ekki á réttum tíma; hæpið er að annar aðilinn víki frá slíkum ófrávíkjanlegum lagafyrirmælum með einhliða ákvörðun um "vanskilagjald" til viðbótar ríflegum skaðabótum sem löggjafinn hefur ákveðið. Frá og með 1. febrúar sl. eru vanskilagjöld berum orðum bönnuð samkvæmt reglugerð viðskiptaráðherra um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. sem sett var fyrir þremur vikum enda tel ég bráðabirgðaákvæði um þrönga undanþágu út febrúarmánuð ekki eiga við um svo einfalt atriði. Vera kann að sumir kröfuhafar eða fjármálafyrirtæki kalli gjald fyrir innheimtuviðvörun, sbr. 2. tl. hér að neðan, óvart vanskilagjald og valdi þar með misskilningi um að gjaldheimtan sé óheimil.
  2. Gjald fyrir innheimtuviðvörun samkvæmt innheimtulögum frá í fyrravor, sem tóku gildi nú um áramótin, er því miður heimilt samkvæmt lögunum þó að í innheimtuviðvörun felist fyrst og fremst ágæt réttarbót frá fyrra ástandi. Gjaldið má að hámarki vera 900 kr. samkvæmt áðurnefndri reglugerð og þá aðeins ef viðvörun er réttnefni, þ.e. ef hún er send eftir gjalddaga. 
  3. Seðilgöld eru gjöld sem fyrir nokkrum árum var farið rukka neytendur og aðra skuldara um samhliða greiðslu án þess að um vanskil væri að ræða. Mér virðast tilkynningar- og greiðslugjald vera annað heiti yfir það sama. Fleiri heiti kunna að tíðkast. Fljótlega eftir að ég tók við nýju embætti talsmanns neytenda fyrir rúmum þremur árum fór ég að amast við slíkum gjöldum með röksemdum, sem raktar eru hér að neðan, en mætti skiljanlega andstöðu frá kröfuhöfum, fjármálafyrirtækjum og jafnvel fleirum; taka ber fram að bestu rökin með seðilgjaldi eru að mínu mati umhverfisrök og þau rök að sá, sem vill fá pappír sendan til áréttingar greiðsluskyldu, eigi að greiða fyrir það sjálfur. Gagnrýni mín á svonefndan FIT-kostnað og andstaða mín o.fl. við seðilgjöld leiddi til þess í ágúst 2007 að nýr viðskiptaráðherra skipaði starfshóp um málið sem féllst á eftirfarandi röksemdir mínar í skýrslu frá desember 2007 sem má lesa hér ásamt viðbrögðum þáverandi viðskiptaráðherra í janúar 2008. Hér má lesa upplýsingar um málið á vef Neytendastofu og meðferð af hennar hálfu. Í stuttu máli eru rök mín gegn lögmæti seðilgjalda eftirfarandi (sbr. nánar í áðurnefndri skýrslu, bls. 11-12, einkum neðanmálsgrein 6):

 

  • Seðilgjald er stundum beinlínis andstætt lögum sem Alþingi hefur sett.
  • Jafnvel þótt svo sé ekki í öllum tilvikum skortir oft stoð í samningi fyrir seðilgjaldi sem gerður hefur verið við neytanda, beint eða óbeint (þ.e. óbeint í skilmálum fyrirtækis sem neytandi hefur fengið tækifæri til þess að kynna sér).
  • Seðilgjald á að vera sanngjarnt og byggt á raunkostnaði en á það hefur skort.

 

Tvær leiðir voru ræddar í starfshópnum og nefndar í skýrslu hans (bls. 11-12):

 

A) Algert bann við seðilgjöldum - sem hefði verið einfaldast; ekki var fallist á það - m.a. með vísan til ofangreindra röksemda með seðilgjöldum og til samningfrelsis.

B) Skilyrt heimild til töku seðilgjalda sem viðskiptaráðherra framfylgdi með tilmælum í kjölfarið; skilyrðin voru fjögur, eftirfarandi:

  • Samningur um seðilgjald.
  • Sannanlegur raunkostnaður að baki seðilgjaldi.
  • Reikningur sé sendur.
  • Raunhæfur gjaldfrjáls valkostur til þess að komast hjá seðilgjaldi.

 

Nú þegar tæpt ár er liðið frá tilmælum þessum kann að vera tímabært að íhuga kost A) - fortakslaust bann í lögum við seðilgjaldi - þar sem ástandið virðist lítið hafa batnað síðan frá sjónarhóli neytenda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Hreint út sagt frábærir pistlar hjá þér og maður lærir helmingi meira um lög en með því að reyna að stauta sig fram úr lagabókum almennt þar sem orðskrúðið er svo yfirdrifið að maður skilur ekki helminginn.

Annars vissi ég nú fyrir að þú kannt lögin og hef sjálf verið vitni hjá þér í máli og að mínu mati stóðstu þig afburðavel. það vantar sannarlega fleiri menn eins og þig.

TARA, 12.2.2009 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband