Ríkisafskipti eingöngu af verðlagningu lánsfjár?

Í gær þáði ég - öðru sinni og með þökkum - þetta endurtekna góða boð um "ókeypis" þjóðhagfræðikennslu í boði ríkisháskólans - enda virðast flestir hagfræðingar telja mig á villigötum þegar ég efast um rétt sé að verðlagning á lánsfé sé háð öðrum lögmálum en önnur vara og þjónusta á markaði - sem á að heita frjáls. Fáir hagfræðingar styðja efasemdir mínar og því verð ég sem talsmaður neytenda að afla mér frekari þekkingar sjálfur.

 

Eftir að frjáls verðlagning á leigubifreiðarþjónustu var tekin upp fyrir um 2ur árum (þegar Samkeppniseftirlitið ákvað að ekki mætti lengur miðstýra verðlagningu, meira að segja með atbeina þeirrar ríkisstofnunar) er sennilega ekki margt fleira (ég lýsi eftir öðrum dæmum) en búvörur sem eru háðar ríkinu um verðlagningu; þetta kallast samkvæmt prófessor í HÍ staðreyndarhagfræði.

 

Flestir hagfræðingar, sem vinna ekki hjá hagsmunaaðilum sem hafa aðra hagsmuni, gagnrýna þetta fyrirkomulag þó - og telst sú afstaða samkvæmt sama prófessor svonefnd stefnuhagfræði.

 

Þess vegna skil ég enn ekki víðtæka andstöðu hagfræðinga við hugmyndir um að stór hluti endurgjalds fyrir lán á peningum - svokallaðar verðbætur í formi ríkisútreiknaðrar vísitölu neysluverðs - sé einfaldlega settur inn í vextina og þar með sýnilegri og háðari samkeppni.

 

Er þetta ekki eins og ef seljendur annarrar vöru og þjónustu gætu verðlagt fastakostnaðinn en rukkað eftir á og með aðstoð ríkisins fyrir breytilegan eða óvissan kostnað? Þá gæti bakarinn sagt:

 

Rúnnstykkið kostar 80 kr. - en svo rukka ég þig síðar um meira ef hitunarkostnaður eða heimsmarkaðsverð á hveiti (sem er þó "relevant" fyrir þann geira) hækkar mér í óhag - eða ef bakarasveinninn veikist.

 

Eini munurinn er að kaup á rúnnstykki eru í eitt skipti en lán eru gjarnan til 25 eða 40 ára - en breytir það dæminu? Það á líka við um neytandann að vilja vita að hverju hann gengur til langs tíma.

 

Boðið er upp á rökræður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björgvin Jóhannsson

Sæll, Gísli.

Nokkrar athugasemdir:

1)  Hvort lán er verðtryggt eða ekki er samningsatriði milli lántaka og lánveitanda.  Ef það á að "afnema verðtrygginguna" þarf að banna hana með lögum.

2)  Hin ríkisreiknaða vísitala neysluverðs er svo að hver og einn geti ekki reiknað einhverja vísitölu sem er honum í hag.

3) Samlíkingin þín er því miður röng.  Lán á peningum er í grunninn leiga en ekki sala.  Ef ég lána þér rúnnstykki, þá vil ég fá rúnnstykki til baka, ekki bara hálft rúnnstykki af því að rúnnstykki hafa hækkað í verði (og hugsanlega einhverja þóknun fyrir að ég þurfti að bíða með að fá mér rúnnstykki). 

kveðja,

Björgvin

Björgvin Jóhannsson, 3.9.2008 kl. 21:52

2 Smámynd: Geir Guðjónsson

Hér er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og full ástæða til að koma af stað  umræðum um þetta mál sem er eitt mesta hagsmunamál allmennings í þessu landi að fáist leiðrétting á. Lögin um verðtryggingu voru sett í efnahagsumhverfi sem var að miklu leiti handstýrt, gengisfellingar í hverjum mánuði, höft á inn og útstreymi fjármagns og allra handanna afbrigðilegheit í viðskiptum innanlands sem utan, vöruskipti, ríkiseinokun á mörgum sviðum og svo mætti lengi telja. Á þeim tíma voru þessi lög sett til varnar lífeyrissjóðakerfi landsmanna, sem og til að tryggja útlán ríkissjóðs meðal annars gegnum húsnæðislánakerfið sem brunnu á verðbólgubáli þess tíma. Nú hefur frá þessari lagasetningu margt breyst í okkar lagaumhverfi er lýtur að viðskiptum og verslunarháttum, höftum aflétt, samkeppni og markaðsbúskapur færður til þess horfs sem tíðkast í okkar samanburðar og viðskiptaríkjum. Þó eru enn lík í lestinni, til að mynda umtöluð verðtrygging og regluverk og verklagsvenjur við ákvorðun vaxta, vísitölu og annarar gjaldtöku við lántöku þegna þessa lands, svo að ekki er á nokkurn hátt sam bærilegt því sem gerist til að mynda á norðurlöndum eins og fólk sem reynt hefur vitnar um, Væri gaman að fá dæmi þar um hingað á þennan þráð. Aftur á móti er verðtryggingin varin af hópi málsmetandi manna með ýmsum rökum, sem ég fer ekki að rekja hér, það verða aðrir til þess. Hins vegar er það eðli máls samkvæmt aðallega hagsmunagæslumenn bankakerfis og fjármagnseigenda sem ákafast verja verðtrygginguna, á stundum með hræðsluáróðri um að hér sé um að ræða einhverskonar náttúrulögmál og allt fari í bál og brand verði við hróflað. Þeir eiga sé fáa andmælendur nema þá Jón Magnússon sem hefir fyrir vikið mátt sæta nokkurs konar einelti. Þess vegna fagna ég mjög þessari viðleitni umboðsmanns neytenda að hreyfa við þessu máli. Að endingu vil ég segja þetta, hvað sem öllum rökum með og móti verðtryggingu líður. Það fyrirkomulag að stór hluti þjóðarinnar hafi tekjur sínar óverðtryggðar en stóran hluta gjalda sinna verðtryggðan þar sem verðbætur leggjast og við höfuðstól láns, er ekki rétt, ósvinna sem verður að leiðrétta til hagsbóta fyrir landslýð í heild.

Með kveðju,

Geir Guðjónsson

Geir Guðjónsson, 3.9.2008 kl. 22:16

3 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sæll Björgvin.

1. Rétt; róttækasta breytingin á núverandi fyrirkomulag er bann með lögum. Ýmsar millileiðir eru til og þá eru aðrar aðferðir við að hafa áhrif á þetta svokallaða frjálsa val en með lögum.

2. Sammála; ef menn vilja gera þetta er þetta ekkert vitlaus aðferð. Ég hef bara efast um að þetta sé rétt að gera.

3. Meginatriðið er að samningar skulu standa; þetta eru einu samningarnir sem standa ekki - heldur er gefin opinn tékki á annan aðila samningsins án áhrif og án takmarkana vegna ytri aðstæðna. Öfugt við aðrar forsendubreytingar eins og "force majeure" sem afturkalla skyldur beggja.

Takk Geir; ég treysti okkar góða lífeyriskerfi til þess að ávaxta okkar pund hjálparlaust frá ríkinu.

Gísli Tryggvason, 4.9.2008 kl. 20:49

4 Smámynd: Auðun Gíslason

"...samningsatriði milli lántaka og lánveitanda."  Þetta er nú svolítið þreytt og þrautseig blekking.  Sá sem ætlar sér að fara setjast við samningaborðið, þegar kemur að því að taka lán, hvort heldur er í banka eða Íbúðalánasjóði, lendir sennilega í því að vera vísað á dyr og sagt að reyna annars staðar.  Veruleikinn er sá, að lánveitandinn, hver sem hann er, ræður kjörunum og skilmálunum.  Það má svo sem leita fyrir sér á markaðnum.  En veruleikinn er þessi.  Þrátt fyrir lagabókstafi, og augljósan barnaskap þess, sem heldur öðru fram.  Ef einhver getur bent mér á peningastofnun, þar sem almenningur getur samið um skilmála og kjör lána, þá skal ég éta þetta ofaní mig!

Auðun Gíslason, 6.9.2008 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband