Vaxandi gagnrýni á svonefnda verðtryggingu

Hér er góð, vel rökstudd, umfjöllun (og margar athugasemdir frá bloggurum) um málefni sem ég hef lengi leitast við að finna formlegan flöt á vegna efasemda minna um fyrirbærið en enn ekki tekist - m.a. vegna þess að fáir hagfræðingar vilja taka - ég meina auðvitað geta tekið - undir efasemdir mínar.

 

Viðfangsefnið hef ég formlega nefnt lengra og formlegra heiti en "verðtryggingin" er kölluð í daglegu tali, þ.e. eitthvað á þessa leið:

 

Gildandi fyrirkomulag á sjálfkrafa (lögvarinni) tengingu neytendalána við vísitölu neysluverðs.

 

Álitaefnið kalla ég helst ekki "afnám" verðtryggingar (sem væri þá eini valkosturinn við óbreytt ástand) - heldur hugsanlega eitthvað þar á milli; ég hef efasemdir um núverandi framkvæmd.

 

Ég hef einkum - en ekki eingöngu - gagnrýnt svonefnda verðtryggingu út frá tveimur sjónarmiðum - þannig að umfjöllun mín hefur ekki verið órökstudd

  • þó að ég hafi ekki komist að formlegri eða endanlegri niðurstöðu og
  • þótt sumir ljósvakamiðlar og jafnvel prentmiðlar klippi og skeri þegar þeir spyrja mig um svo flókið og umdeilt mál.

 

Í fyrsta lagi hef ég vakið athygli á því neytendasjónarmiði að óréttmætt sé að annar aðilinn, sá veikari, skuldarinn (oft neytandi) beri alla áhættuna af óvissum atburði - sem hann hefur enga stjórn á einn og sér, verðbólgunni; hinn aðilinn, t.d. banki, hefur hins vegar oft nokkkur áhrif á þenslu og þar með verðbólgu með athæfi sínu. Sú óskipta áhætta skuldarans er auk þess ekki háð neinum takmörkunum; maður gæti sagt:

 

"the sky is the limit." 

 

Þetta taka sumir lögfræðingar undir og stundum útlendingar - ef þeir skilja yfirleitt fyrirbærið sem ég er að reyna að lýsa. Mótrökin um að neytendur ávaxti líka fé eiga ekki fyllilega við að mínu mati þar eð þeir gera það ekki í atvinnuskyni - enda teldust þeir þá ekki neytendur samkvæmt skilgreiningu; neytendur sem ávaxta fé - annað hvort sem frjálsan sparnað eða (skyldu)bundinn lífeyrissparnað - gera það ávallt fyrir milligöngu sérfróðra aðila - svo sem banka og lífeyrissjóða - sem ströng skilyrði og ítarlegur lagarammi gildir um og verndar hann m.a. neytendur - auk samkeppnislögmála um bestu ávöxtun og markaðs- og efnahagslögmála um vaxtastig. 

 

Í öðru lagi hef ég haldið fram því efnahagslega sjónarmiði - sem vissulega er ekki á sérsviði mínu - að "verðtrygging" sé ekki bara lögvernduð afleiðing verðbólgu heldur líklega að nokkru leyti orsök hennar; sterkir aðilar á markaði hafa m.ö.o. ekki sérstakan hag af því að halda niðri verðbólgu því að þeir fá vextina ávallt (sem eru ekki lágir hérlendis) auk verð"bóta" ofaná - óháð sinni fjármögnun. Jafnvel kunna einhverjir að hafa hagnast af meiri verðbólgu án þess að ég hafi ennþá beinlínis leitað uppi slík dæmi.

 

Í fyrra tók ég í embættisnafni með umsögn til viðskiptaráðuneytis undir fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur þingkonu um brýna þörf á greiðsluaðlögun - m.a. með vísan til þeirrar útbreiddu verðtryggingar sem tíðkast hérlendis. Nýverið áréttaði ég þessa afstöðu í ítarlegri umsögn um drög viðskiptaráðuneytis að frumvarpi um greiðsluaðlögun sem er félagslegt úrræði til handa neytendum í verulegum greiðsluvandræðum. RÚV fjallaði síðan um umsögnina síðdegis í gær í fréttum hljóðvarps.

 

Í hádegisfréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar í gær var svo fjallað um "afnám verðtryggingar" og aftur komu svo andmæli í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

 

Opinber rökræða heldur áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þetta er þörf umræða enda er farið að syrta verulega í álinn. Mér sýnist að þessi mál muni fljótlega líkjast ástandinu í kringum 1982 þegar Sigtúnarhópurinn s.k. var myndaður. Á þeim tíma var kippt úr sambandi öllum tengslum lána við laun. Þetta var gert með því að launavísitala var afnumin en lánskjaravísitala hélt sér.

Staðan nú er að einu leyti verri. Samkennd um að bjarga sem flestum frá þessum vandræðagangi er ekki fyrir hendi. Það virðist (enn sem komið er) að fjármálastofnanir ætli sér einfaldlega að græða á niðursveiflunni líka.

Það er eiginlega gremjulegt að horfa upp á að þessi staða er öll einhvern vegin svo óvægin og hjartalaus. Það hefur verið talað um nýja þjóðarsátt til að leysa þessi mál en það gerist líklega ekkert fyrr en skaðinn verður orðinn mörgum óbærilegur.

Aðgerðarleysi þeirra sem geta haft áhrif er óþolandi. Það er vitað að siglt er að feigðarósi en það tekur enginn í stýrið.

Haukur Nikulásson, 1.9.2008 kl. 08:52

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þessi verðtrygging er dálítið sérstakur kapítuli í okkar viðskiptaumhverfi. Þó er önnur trygging sem verðskuldar ekki síður umræðu og þó helst opinbera rannsókn. Þar á ég auðvitað um samtryggingu valdamikilla einstaklinga í pólitík og öflugra fjármálamanna/fyrirtækja. Næstum daglega birtast fréttir í fjölmiðlum þar sem skýrt er frá eignaumsýslu fyrir opnum tjöldum og þar sem greinilega er misfarið með fjármuni fyrirtækja og einstaklinga. Og auðvitað situr eftir ábati á réttum stöðum eins og til var stofnað. Allt samfélagið er gegnsýrt af þessari andstyggð og fólk tekið að sljóvgast vegna þess að enginn aðhefst neitt.

Það er vísbending um mjög sjúkt samfélag þegar milljarða-og tugmilljarða verðmæti skipta um eigendur með vafasömum viðskiptaháttum og enginn hreyfir hönd eða fót. 

Árni Gunnarsson, 1.9.2008 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.